Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:50:24 (1499)

2000-11-09 13:50:24# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Gunnar Birgisson:

Herra forseti. Losun lofttegunda út í andrúmsloftið sem geta orsakað loftslagsbreytingar er mjög alvarlegt mál. Margar ráðstefnur hafa verið haldnar um málefnið og samþykktir gerðar sem hafa verið m.a. samþykktar af stóru iðnríkjunum t.d. í Ríó og Kyoto. Þrátt fyrir fögur orð og góð fyrirheit virðast stóriðjuríkin fara sér hægt í að minnka magn óæskilegra lofttegunda sem þau sleppa út í andrúmsloftið en fagurgalinn heldur áfram. Það er ekki nóg að skrifa undir yfirlýsingar og fara síðan ekki eftir þeim.

Orkugjafar margra þjóða eru mjög mengandi eins og kol og olía. Kostnaður við að minnka magn óæskilegra lofttegunda er gífurlegur og er orsök fyrir hægri þróun í þeim málum.

Hér á landi er aftur á móti allt önnur staða. Orkugjafar okkar eru margir mjög vistvænir sem betur fer. Mest af orku okkar kemur frá vatnsafls- og gufuaflsvirkjunum og nú er verið að skoða notkun vetnis og metangass sem orkugjafa fyrir bifreiðir. Staða okkar Íslendinga í þessum málum er einstök í heiminum.

Það sem er mengandi fyrir andrúmsloftið hér á landi er útblástur frá bifreiðum og fiskiskipaflotanum og lofttegundum sem koma frá Ísal, Norðuráli og járnblendinu á Grundartanga. En magn lofttegunda af þessum orsökum er hverfandi í samanburði við önnur lönd. Innan fárra áratuga er hugsanlegt að bifreiðir og skipavélar gangi fyrir rafmagni, vetni eða metangasi.

Ísland á að halda áfram að vera leiðandi í notkun vistvænna orkugjafa og sýna með því umheiminum gott fordæmi.