Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:56:37 (1502)

2000-11-09 13:56:37# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við erum að tala um hnattrænt vandamál sem verður því miður ekki vandamál í óljósri framtíð heldur er það þegar komið fram eins og rannsóknir á veðurfari á jörðinni sýna. Hlýnun í heild sinni síðustu 100 árin eru miklu meira en tilviljunarkenndar breytingar á veðurfari undanfarin 1000 ár en passar aftur á móti nokkuð vel við vaxandi styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti, þ.e. hún getur talist vera af mannavöldum. Afleiðingar hlýnunar verða margvíslegar eins og mönnum ætti að vera kunnugt og munu hafa mikla röskun í för með sér á lífsskilyrðum í heiminum. Því er mikilvægt að þjóðir heims vinni af krafti að því að ná alþjóðlegum samningum til að draga úr áhrifum gróðurhúsalofttegunda. Iðnríkin verða að taka á sig mesta ábyrgðina við að draga úr loftmengun því að þau menga mest á hvern íbúa og þar erum við Íslendingar engir eftirbátar. Markmiðið er að allar þjóðir heims komi inn í rammasamning Sameinuðu þjóðanna með skuldbindingar sínar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er hægt að gera með margvíslegum hætti eins og samræmdri samgönguáætlun, bindingu kolefna í jarðvegi og gróðri, draga úr nýtingu jarðefna og eldsneytis og nota hreina endurnýtanlega orku til hreinni framleiðslu. Við eigum að undirrita Kyoto-bókunina í Haag með þeim undanþágum eða sem kallað er íslenska ákvæðið og við eigum að laga okkur að þeirri staðreynd að til framtíðar mun það verða okkar þjóð til heilla. Við eigum að aðlaga orkunotkun og atvinnustefnu okkar til framtíðar að skuldbindingum samningsins og hverfa frá stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Aðild að samningnum verður skuldbinding okkar til sameiginlegrar ábyrgðar á möguleikum þjóða heims til nokkurra lífsgæða í framtíðinni.