Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 14:01:05 (1504)

2000-11-09 14:01:05# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Það má segja að akkillesarhæll okkar Íslendinga sé af tvenns konar toga. Í fyrsta lagi gerðum við mjög vel fyrir 1990. Sem stendur eru 67% af orkunni sem við nýtum endurnýjanleg orka, þ.e. við gerum best í heiminum á þessu sviði. Evrópusambandið streitist við að ná 12% í endurnýjanlegri orku árið 2020. Í dag erum við í 67%. Þetta gerðum við fyrir 1990 og nú er það talið mjög slæmt fyrir okkur í samhengi við samninginn.

Í öðru lagi erum við fá. Við búum við lítið hagkerfi og hér var dregið fram af forsrh. að t.d. 200 þúsund tonna álver, ef við viljum byggja slíkt, losar 11--13% miðað við útblásturinn 1990. Sama verksmiðja mundi losa um núll komma núll núll einhver prósent annars staðar. Við stöndum frammi fyrir vandamáli sem er erfitt að skýra nema með orðunum ,,hlutfallslegt vandamál`` vegna þess hve við erum smá. Við höfum fengið ágætisskilning á þessu hjá öðrum þjóðum. Þegar við höfum tekið tíma í að útskýra þetta þá skilja aðrar þjóðir málflutning okkar. Ég vona að þær muni styðja okkur áfram í að útfæra þann texta sem við fengum viðurkenningu á í Kyoto á sínum tíma. Þjóðirnar eru að vísu hræddar við það fordæmi sem það gefur en ég vona sannarlega að þær standi með okkur á lokasprettinum.

Ég vil einnig benda á að við höfum verið að binda kolefni undir forustu stofnana landbrn. Það er búið að binda kolefni með landgræðslu og skógrækt, um 100 þús. tonn á ári. Við höfum lagt 450 millj. kr. í það þannig að við höfum gert mjög margt gott og jákvætt á þessum vettvangi.