Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 15:04:09 (1510)

2000-11-09 15:04:09# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. gerði að umræðuefni það sem áður hefur komið fram í umræðunni, að heppilegra hefði verið að breikka tekjustofna sveitarfélaganna og sveitarfélögin fengju hlutdeild í fleiri tekjustofnum. Ég var reyndar búinn að svara því í ræðu minni í morgun.

Hv. þm. kom inn á aðstöðugjaldið, að það hefði verið fellt niður. Ég vil taka það fram að aðstöðugjaldið var fellt niður eftir mikla gagnrýni og ég man ekki betur en að hún hafi komið frá landsbyggðinni. Hún var þannig til komin að menn sögðu að þetta gjald kæmi svo misjafnlega niður að höfuðborgarsvæðið mokaði saman peningum á þessu gjaldi sem var tengt fyrirtækjum, en önnur sveitarfélög stæðu þar allt öðruvísi að vígi. Ég man ekki betur en að um þetta væri nokkuð gott samkomulag á sínum tíma og ég man ekki annað en að um þetta hafi ríkt nokkuð góð samstaða.

Að öðru leyti endurtek ég að í starfi nefndarinnar kom fram að útsvarið er langsamlega stabílasti og traustasti tekjustofninn sem sveitarfélögin eiga völ á. Hitt eru sveiflukenndir tekjustofnar og margt sem bendir til þess að t.d. fjármagnstekjuskattur og fyrirtækjaskattar hækki ekki í sama mæli næsta ár t.d. og var á síðasta ári og hækki ekki í sama mæli á yfirstandandi ári og var síðast.