Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 15:06:07 (1511)

2000-11-09 15:06:07# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki einn af þeim sem sjá mikið eftir aðstöðugjaldinu. Mér fannst það koma misjafnt niður. Ég var hins vegar að minna á feril hæstv. forsrh. sem beitti sér fyrir þessu máli og auðvitað vissu allir að það kæmi mest niður á Reykjavík, en hann hafði einmitt gengið þar úr stól og skilið þá borg eftir í skuldafeni þegar hann gekk til Alþingis og tók af henni tekjustofnana.

Ég held hins vegar að fleira þurfi að koma til en útsvarið til að auka tekjur sveitarfélaganna vegna þess að það kemur mjög misjafnt niður. Auðvitað er það rétt af með jöfnunarsjóði og öðru slíku, en ég held samt að nauðsynlegt sé að atvinnulífið á hverjum stað taki þátt í þörfum sveitarfélagsins og greiði gjöld til þess. Það er nauðsynlegt til þess að allir hlutir gangi eðlilega fyrir sig.

Það verða sveiflur vegna atvinnulífsins, og sú aðgerð af því tagi sem menn voru að gera þegar þeir tóku aðstöðugjaldið af á sínum tíma var fyrst og fremst að koma til móts við atvinnulífið sem var þá í miklu lamasessi. Ég tel að í framhaldi af því hefðu menn þurft að skoða hvort ekki ætti að koma til móts við sveitarfélögin með einhverjum öðrum hætti, með því að sveitarfélögin fengju hlutdeild í öðrum sköttum og fleiru en bara útsvarinu sem ég tel reyndar að megi vera býsna stór hluti af tekjum sveitarfélaganna. Alla vega þurfa menn að horfa alvarlega á það að jöfnunarsjóðurinn má ekki vera eins stór hluti af tekjum sveitarfélaganna og hann er núna.