Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 15:10:22 (1513)

2000-11-09 15:10:22# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því ef það er staðfasur vilji að menn gangi í það að skoða Jöfnunarsjóðinn og skoða tekjustofnana áfram til að koma þessu í betra horf en það er núna því að enginn vafi er á því að þarna þurfa menn að taka á og gera betur. En hitt er annað mál að ég tel alveg nauðsynlegt að sveitarfélögin hafi ákveðnar tekjur sem eru tengdar atvinnurekstrinum á svæðinu og ekki bara launum fólksins heldur líka fyrirtækjunum sjálfum vegna þess að öll sveitarfélög veita þessum fyrirtækjum þjónustu. Og auðvitað þarf að vera einhver umbun fyrir þá þjónustu. Það þarf líka að vera möguleiki hjá sveitarfélögunum að fá til sín atvinnurekstur. Við þekkjum það í gegnum tíðina að ýmis sveitarfélög hafa haft stefnu í þessum málum, reynt að ná til sín tilteknum atvinnurekstri, jafnvel stuðlað að einhvers konar sérhæfingu byggðarlaganna í atvinnurekstri og þjónustað þessi fyrirtæki vel. Mér finnst eðlilegt að þarna sé til tekjustofn sem er tengdur beint við sveitarfélögin og að atvinnulífið á hverjum stað finni að það á heima þar en á ekki samskipti sín alltaf og alfarið við ríkið hvað varðar skatta og gjöld. Ég held því fram að í framtíðinni muni margt af því sem ríkið er núna að skipta sér af gagnvart atvinnurekstri í landinu færast til sveitarfélaganna og þess vegna sé það eðlileg þróun að flytja eitthvað af þeim gjöldum og álögum sem atvinnureksturinn borgar til sveitarfélaganna.