Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 15:12:33 (1514)

2000-11-09 15:12:33# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁRJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er kannski ekki ástæða til að setja mikið út á fundarstjórn forseta sem slíks, en aftur á móti gerði ég þá athugasemd í máli mínu áðan að í allri umræðunni um þetta mikilvæga mál, sem eru tekjustofnar sveitarfélaga, hafi varla sést hér þingmaður frá sjálfstæðismönnum og ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort það gæti verið svo að sjálfstæðismenn hafi ekki áhuga á því að fylgjast með þessu máli. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita hversu margir sjálfstæðismenn eru hér í húsinu. Reyndar verð ég að fagna því að einn hv. þm., Gunnar Birgisson, rak hér inn nefið í mýflugumynd áðan þannig að hann virðist a.m.k. vera í húsinu. Aftur á móti furða ég mig á því satt að segja að þingmenn Sjálfstfl. skuli ekki taka þátt í umræðunni og hvort það séu bara framsóknarmennirnir sem eigi að bera það uppi að verja það að svona sé farið að í þessu máli. (Félmrh.: Þeir fara létt með það.) Ja, þeir fara létt með að fara þá leið fyrir Sjálfstfl. að leggja þessar álögur á höfuðborgarbúa. Það er greinilegt og mér sýnist hæstv. ráðherrann glaðhlakkalegur yfir þessu.

En aftur á móti, herra forseti, hefði ég gjarnan viljað fá upplýsingar um hversu margir sjálfstæðismenn eru í húsinu. Get ég fengið upplýsingar um það?

(Forseti (ÁSJ): Forseti getur upplýst hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur um að í þinghúsinu eru 19 þingmenn. Hér eru ekki upplýsingar um hversu margir eru á skrifstofum sínum. En það munu vera sjö sjálfstæðismenn í þinghúsinu.)

Herra forseti. Þeir hafa ekki sést hér eftir hádegið í þessari mikilvægu umræðu. Aftur á móti hafa hér verið einn til tveir þingmenn úr öðrum flokkum en Samfylkingunni. Ég verð að segja það aftur, herra forseti, mig undrar að þingmenn Sjálfstfl. skuli ekki vera hér því að maður hefði a.m.k. haldið að þeir þingmenn sem eru líka sveitarstjórnarmenn og það sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu, sem þetta frv. kemur mjög illa niður á, vildu taka þátt í umræðunni hér í dag.

(Forseti (ÁSJ): Forseti telur sig hafa upplýst hv. þm. um hversu margir eru staddir í þinghúsinu og hversu margir sjálfstæðismenn eru af þeim 19 sem hér eru skráðir með viðveru.)