Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 15:18:03 (1517)

2000-11-09 15:18:03# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Aðeins í framhaldi af þeirri umræðunni um hvernig þessi mál eru unnin á hinu háa Alþingi er rétt að geta þess að einn þingmanna Sjálfstfl. rak inn nefið rétt sem snöggvast núna. Hann var að vísu ekki í mýflugumynd en rak rétt inn nefið. En það er alveg hárrétt sem hefur komið fram, og það er mjög undarlegt að stærri stjórnmálaflokkurinn, leiðandi afl ríkisstjórnar, skuli hreinlega skila auðu og hverfa úr þingsal þegar þetta mál er rætt. Það er alveg með ólíkindum, að ég tali ekki um blessaða hv. þm. Sjálfstfl. af landsbyggðinni sem hafa riðið um héruð fyrir kosningar og boðað lækkun fasteignaskatta á landsbyggðinni sem mun ekki virka nema í eitt ár eins og ég kem að betur á eftir. Þeir eru flúnir af hólmi og vilja ekki standa hér og ræða um það að árið 2002 verður lækkunin tekin til baka með því að hækka útsvar íbúa landsbyggðarinnar, þessara litlu sveitarfélaga, og taka þar með til baka allan þann fjárhagslega ávinning sem átti að vera við að breyta hinu vitlausa kerfi sem hefur verið við álagningu fasteignagjalda á landsbyggðinni undanfarin svo og svo mörg ár.

Þingmenn Sjálfstfl. eru flúnir af hólmi og það er eðlilegt í raun og veru. Það er aumkunarvert hlutskipti aumingja hv. þm. Framsfl. að sitja hér. Tveir eru skildir eftir. Hæstv. félmrh. og hv. þm. Jón Kristjánsson, sem stýrði þessari ágætu nefnd, eru skildir eftir í salnum til andsvara fyrir stjórnarflokkana báða. Aumt er þeirra hlutskipti.

Það er alveg hárrétt sem kemur fram í skýrslu nefndarinnar þegar hún leggur mat á hvers vegna hefur hallað svo á sveitarfélögin í fjárhagslegum skilningi. Það er hárrétt mat sem kemur hér fram. Það er mikil búseturöskun síðustu tvö ár sem hefur leitt til þess að sveitarfélög þar sem fólki fækkar lenda í rekstrarörðugleikum þegar færri íbúar standa undir fjármögnun þeirrar þjónustu sem er nauðsynlegt að veita. Það er alveg hárétt.

Þetta er það sem kemur fram í reikningum svo margra sveitarfélaga á landsbyggðinni, hjá þeim sveitarfélögum sem hafa átt hluta af þeim 12.000 íbúum sem hafa þurft að fara frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins undanfarin tíu ár. Það er sá fórnarkostnaður sem þar er að koma fram, enda kemur fram í öllum tölum um sveitarsjóði að hlutfall rekstrarútgjalda af skatttekjum hefur aukist úr 78,4% árið 1990 í 91,5% 1999. Ætli það sé ekki töluvert miklu verra hjá mörgum sveitarfélögum og litlum sveitarfélögum úti á landi? Ég hygg það.

Þess vegna finnst mér ótrúlegt að sú nefnd sem hér er að skila af sér skuli ekki taka betur á því og skilgreina hreinlega vandann milli litlu sveitarfélaganna á landsbyggðinni og stóru sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þar er mikill munur á. En það tækifæri sem gafst núna til að koma með tillögur í því efni hefur verið látið fram hjá fara, því miður.

Það er með ólíkindum að þetta skuli vera gert svona. Um niðurstöðu þeirrar nefndar sem hefur, eins og ég sagði áðan, skilað ágætum pappírum í raun og veru, vil ég segja að ég tel að ástæða þess að hún skili ekki betri tillögum til sveitarfélaganna, um að einhverju verði skilað til baka sem af þeim hefur verið tekið, tekjustofnum sem þau hafa átt að fá undanfarin ár, ástæðan er sennilega vegna þess að hæstv. forsrh. greip inn í störf nefndarinnar á ákveðnum tímapunkti og sendi sveitarfélögunum tóninn um að þau hefðu ekkert með meira fé að gera, þau þyrftu aðeins að taka til heima hjá sér, spara og skera niður.

Þetta voru mjög kaldar kveðjur til sveitarfélaga út um allt land, en þetta voru ákveðin skilaboð sem sýnist því miður hafa orðið ein meginniðurstaða nefndarinnar eftir að hæstv. forsrh. tjáði sig með svo afgerandi hætti sem hann gerði á sínum tíma. En þetta, því miður, ætla hv. þm. Framsfl. að láta yfir sig ganga og gera að málum sínum og verja þrátt fyrir að þeir viti miklu betur og séu sennilega aðeins betur þenkjandi en sjálfstæðismenn gagnvart sveitarfélögum á landsbyggðinni eða a.m.k. var það einu sinni svo að Framsfl. taldi sig vera málsvara fyrir landsbyggðina og það sem þar væri. En mér sýnist það hafi horfið enda sagði hæstv. félmrh. í útvarpsviðtali norður á Akureyri að það væri sennilega hárétt að Framsfl. hafi gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á mölinni á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Ég held að ástæða væri til að fara yfir áhrif ýmissa laga og reglugerðabreytinga sem hafa leitt til aukinna útgjalda sveitarfélaga án þess að í öllum tilvikum hafi verið tryggt að nægilegir tekjustofnar hafi fylgt í kjölfarið. Þetta er kannski það sem ásamt með ýmsum skattalagabreytingum undanfarin ár hefur skert útsvarstekjur sveitarfélaga og þannig skapað ákveðið ósamræmi milli þróunar útgjalda og tekna. Það er full ástæða, herra forseti, að fara nokkuð yfir þessi atriði og taka nokkur atriði úr þessum kafla.

Það er sannarlega rétt að álögur ríkisins á sveitarfélög í formi skerðingar vegna tímabundinnar þátttöku þeirra í rekstri ríkissjóðs, beinnar skattlagningar og strangari reglna sem sveitarfélög þurfa að framfylgja hafi verið gríðarlega miklar árin 1990--1997. Það kemur kannski best fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. með frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996 þar sem er táknrænt dæmi um afstöðu ríkisvaldsins í þessu efni. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þau nýmæli eru í frv. þessu frá fyrri lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum að flest skerðingarákvæði`` --- takið eftir: flest skerðingarákvæði --- ,,sem endurtekin hafa verið árum saman eru nú sett fram í varanlegu formi.``

Þetta er kannski grundvallaratriðið. Svo getum við farið yfir ýmislegt af því sem þarna kemur fram. Tökum t.d. um fjárfestingu einstaklinga í atvinnurekstri eða svokallaðan hlutabréfaafslátt. Hann hefur aldeilis komið við og skert tekjur sveitarfélaganna allra, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem á landsbyggðinni, en með þeim lögum sem samþykkt voru um þetta, sem voru nr. 38/1987, um tekjustofna sveitarfélaga, var lögfest að útsvarsstofn skyldi vera sá sami og tekjuskattsstofn. Eftir það fór hlutabréfaafslátturinn svokallaði að hafa veruleg áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga, fyrst við álagningu útsvars árið 1989 vegna tekna ársins 1988. Eigum við að fara aðeins yfir, herra forseti, hvað þetta eru miklar tölur?

Í þeim gögnum sem ég hef sýnist mér að það séu um tæpar 800 milljónir á verðlagi ársins 1997 sem þetta hefur gert gagnvart sveitarfélögunum á tímabilinu 1990--1997. Árið 1998 var talið að þetta mundi skerða útsvarsstofn um 258 milljónir og tæpar 300 milljónir á síðasta ári, 1999.

Þetta er með öðrum orðum talandi dæmi um hvernig ríkisvaldið hefur komið í bakið á sveitarfélögunum með samþykktum um að skerða tekjustofna sveitarfélaga.

Nákvæmlega sama er með skattleysi lífeyrisiðgjalda. Byrjað var á þeim hlut 1995. Talið er að skattleysi lífeyrisiðgjalda hafi skert tekjustofna sveitarfélaga um hvorki meira né minna en 1.846 milljónir á verðlagi ársins 1997 og við það hafa bæst hin síðari ár 1998 tæpur milljarður og 1999 tæpar 1.300 milljónir kr. Það er hægt að fara í gegnum þessa liði lið fyrir lið og komast að því, að aðgerðir ríkisvaldsins hafa skert tekjur sveitarfélaga um samtals 14--15 milljarða kr. á tímabilinu eða kringum 1,8--1,9 milljarð kr. á meðaltali hvers árs til ársins 1990--1997. Það er hluti af því vandamáli sem sveitarfélögin í landinu búa við í dag, nettóskuldaaukning sl. tíu ár upp á 21 milljarð króna þegar tekjustofnar eru skertir.

Frá hinu háa Alþingi eru samþykkt ýmis lög og ýmsar reglugerðir koma frá ráðuneytum þar sem hlutur sveitarfélaga er aukinn án þess að fá tekjur á móti.

Þess vegna er það kannski eitt af því besta sem í þessum tillögum er að nú á að fara að kostnaðarmeta ýmsar samþykktir og ákvarðanir Alþingis gagnvart sveitarfélögunum. Það er ósköp einfalt að senda reikninginn annað.

Herra forseti. Hér hefur einnig verið töluvert mikið talað um það og stjórnarþingmenn allir hæla sér af því að nú séu loksins komnar fram tillögur sem taka á og breyta því óréttlæti sem hefur viðgengist við álagningu fasteignagjalda, þ.e. að nota fasteignamatsverð á höfuðborgarsvæðinu til að leggja á fasteignagjöld úti á landi. Talið er að jöfnunarsjóður þurfi að greiða út til sveitarfélaga á landsbyggðinni um 1.100 milljónir í þessum efnum til þess að sveitarfélögin standi svipuð á eftir.

En skyldi vera að sú marglofaða breyting, sem fulltrúar stjórnarflokkanna riðu með um héruð fyrir síðustu kosningar og boðuðu lækkun á fasteignagjöldum á landsbyggðinni virki svo áfram? Nei, svo er ekki vegna þess að ríkisstjórnin hefur í leiðinni boðað að skattar verði hækkaðir árið 2002 á sömu íbúum og eiga að fá lækkunina árið 2001. Með öðrum orðum, það er tekið og gefið á næsta ári og tekið hitt árið til baka. Hver er þá lagfæringin?

Ég vil nota tækifærið og spyrja þá hv. þm. sem eru í salnum, sem eru m.a. af landsbyggðinni, stjórnarþingmenn, hv. þm. Jón Kristjánsson, hvort hún muni nýtast íbúum Austurlands vel eða annarra svæða á landsbyggðinni, þessi breyting á fasteignagjöldum gagnvart árinu 2002 þegar útsvarið verður hækkað.

Var það þetta, hæstv. félmrh., sem var boðað að mundi rétta hag sveitarfélaganna og lækka fasteignaálögur á íbúum á landsbyggðinni?

[15:30]

Ég hef ekki tíma í þessari ræðu að fara út í annan þátt sem er ansi skyldur þessu, þ.e. að nota eingöngu fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu til að mæla vísitölu neysluverðs. Sú stórhækkun sem hefur verið á höfuðborgarsvæðinu á fasteignaverði, m.a. vegna þessarar miklu byggðaröskunar, mælist svo beint inn í vísitölu neysluverðs og hækkar lán hjá íbúum landsbyggðarinnar á sama tíma og eignir þeirra eru að hríðfalla í verði vegna aðgerða héðan frá hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Ég held að það sé afar brýnt að fá það betur skýrt en komið hefur fram að þessi breyting á fasteignasköttum gagnvart íbúum landsbyggðarinnar mun ekki virka í raun nema í eitt ár fyrir íbúa þessara svæða. Árið á eftir hefur ríkisstjórnin ákveðið að útsvarsstofninn skuli hækkaður, að skattar skuli hækkaðir. Það eru skilaboð frá hæstv. ríkisstjórn í dag að skattar skulu hækkaðir bæði á íbúa landsbyggðarinnar og íbúa höfuðborgarsvæðisins. Sú breyting sem hér er boðuð og hefur komið fram getur þýtt um 50 þús. kr. hækkun á útsvari íbúa höfuðborgarsvæðisins miðað við fimm manna fjölskyldu.

Það er aumt, í því mikla góðæri sem nú er þar sem ríkissjóður er virkilega og vissulega aflögufær til að koma til móts við þær litlu breytingar sem hér eru boðaðar, að skattar skuli ekki vera lækkaðir að sama skapi á móti.

Herra forseti. Í blaðaumfjöllun ekki alls fyrir löngu um það sem ég hef gert hér að umræðuefni, þ.e. fasteignaskatt á landsbyggðinni, kom fram frá hæstv. fjmrh., sem því miður er ekki viðstaddur þessa umræðu og er afar undarlegt, að ef fólk væri ekki ánægt með þessa breytingu á fasteignasköttum á landsbyggðinni geti fólk bara greitt atkvæði með fótunum og farið. Herra forseti. Þarna voru sögð ansi stór og þung orð og er alveg með ólíkindum að einn ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli láta sér detta í hug að tala svona til þess að réttlæta þær skattahækkanir sem hér eru boðaðar. Þetta er alveg með ólíkindum.

Herra forseti. Það hefur líka komið fram að á þeim vitlausa álagningarstofni sem hefur verið á fasteignagjöldum á landsbyggðinni undanfarin ár hefur ríkissjóður stórhagnast. Hann hefur stóraukið tekjur sínar með alls konar sköttum sem eru tengdir við fasteignaverð eins og eignarsköttum og stimpilgjöldum. (Gripið fram í.) Og það er alveg með ólíkindum að menn séu svo að hæla sér af því að verið sé að skila 700 milljónum til baka í fólksfækkunarframlög til sveitarfélaga á landsbyggðinni. Gera menn sér grein fyrir því að talið er að ríkissjóður hafi aukið tekjur sínar á þessu ári um allt að einn milljarð vegna tengingar við fasteignamatið og fasteignaskattana í tengslum við ýmiss konar eignarskatta sem hann leggur á? Síðast þegar við vorum að ræða fjárlög fyrir þetta ár, á lokadögum þingsins fyrir síðustu jól, kom það fram þegar fasteignamatið og hækkun fasteignamats á höfuðborgarsvæðinu lá fyrir, að ríkissjóður gat endurmetið sína tekjustofna og út úr því jukust tekjur ríkissjóðs um tæpar 400 milljónir við það að í ljós kom að hækkun fasteignamats var upp á 18% þá? Og hvað skyldi það svo verða núna?

Herra forseti. Því miður verð ég að segja alveg eins og er að ég batt miklar vonir við þá tekjustofnanefnd sem hér var að störfum, að hún mundi skila raunhæfum tillögum um vanda sveitarfélaganna og skilgreina vanda sveitarfélaganna, annars vegar litlu sveitarfélaganna úti á landi og hins vegar höfuðborgarsvæðisins, allt öðruvísi en hér hefur verið gert. Sveitarstjórnarfólk úti um allt land er hundóánægt með þessar tilögur og finnst lítið gengið í átt til að leiðrétta það mikla misvægi sem hefur skapast hér á undanförnum árum og við höfum talað um að geti verið á bilinu 14--15 milljarðar kr.

Herra forseti. Þetta eru björgunaraðgerðir settar fram undir hótunum, liggur við að megi segja, frá hæstv. forsrh. til sveitarfélaganna. Þetta er einn plástur í viðbót. Tækifæri sem nú var hægt að grípa til þess að ganga í þetta verk hefur því miður runnið okkur úr greipum. Það er dapurt til þess að vita að að þessum tillögum skuli m.a. standa tveir hv. þm. af landsbyggðinni, frá landsbyggðarkjördæmum, sem ættu nú að þekkja vanda litlu sveitarfélaganna mjög vel og ég efast ekki um að þeir geri það. En sennilega hafa þau tilmæli frá æðsta prestinum sem látin voru koma fram í fjölmiðlum orðið til þess að allir hafa sest ofan á skottið á sér og ekki þorað að gera meira. Það stendur upp úr þessum tillögum. Og það stendur upp úr þessum tillögum að höfuðborginni er ekki stjórnað í dag af þeim sem hæstv. forsrh. hefur velþóknun á. Og hv. þm. Framsfl., allir sem einn, hafa gengið í þá gildru, því miður, og þess vegna kemur ekki meira út úr þessu en raun ber vitni.

Herra forseti. Hér rétt í lok ræðutíma míns í þessari umræðu vil ég leyfa mér að nota tækifærið, af því að hér sitja nú loksins þingmenn frá Sjálfstfl. --- hér situr einn hv. þm. Sjálfstfl., Pétur H. Blöndal, sem jafnframt á sæti í hv. félmn. --- til að spyrja út í þær tillögur sem hér koma fram og eiga orðastað við hann. Ég ætla að ítreka spurningu sem ég lagði fram áðan um breytingu á fasteignasköttum á landsbyggðinni, þ.e. hvort það sé velþóknanlegt þeim þingmönnum af landsbyggðinni sem hér sitja, hv. þm. Jóni Kristjánssyni t.d. og hæstv. félmrh. Páli Péturssyni, hvort menn séu virkilega ánægðir með það skref sem hér er verið að stíga, að ætla að lækka fasteignaskattana á fólki á landsbyggðinni á næsta ári en með opinni heimild frá hæstv. ríkisstjórn um að hækka skatta árið eftir á þeim íbúum sem eiga að fá lækkun á næsta ári. Er þetta það sem menn boðuðu fyrir kosningar? Ég spyr.

Ég held að allt annað hafi komið fram í þeirri yfirferð sem menn áttu þá um landið. Ég held að það hafi verið boðað að það ætti að lækka álögur á íbúa landsbyggðarinnar en ekki aðeins að færa féð í raun milli vasa, úr vinstri vasa í hægri vasa.