Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:20:41 (1524)

2000-11-09 16:20:41# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ekki seinna vænna að afstaða Sjálfstfl. til þessara tillagna kæmi fram hér í umræðunni.

Fyrst langar mig að spyrja hv. þm.: Úr því að góðærið í dag er ríkisstjórninni og Davíð Oddssyni að þakka, var þá hallærið þar á undan ekki þeim að kenna sem þá stjórnuðu? Voru þeim svona mislagðar hendur þá?

Síðan vil ég líka spyrja hv. þm.: Telur hann að engin þörf hafi verið á því að leiðrétta tekjur milli ríkis og sveitarfélaga í kjölfarið á þeim verkefnum sem flutt hafa verið á milli þessara aðila? Telur hann að rökstuðning sveitarfélaganna fyrir aukinni tekjuþörf einskis virði og vitleysu? Hefur hann farið yfir það og skoðað?

Hv. þm. nefndi skemmtilega hugmynd um að menn kysu um hve háa prósentu þeir ættu nú að borga í skatta. Hann sagði líka að banna ætti skuldasöfnun og þá vil ég spyrja: Ef hann treystir ekki þeim sem stjórna sveitarfélögunum til að ákveða útsvarsprósentu, út frá því hvort fólk fæst til að búa í byggðarlaginu, ætlar hann þá ekki heldur að treysta kjósendum fyrir því að ákveða hver prósentan eigi að vera? Ef um hana er kosið hlýtur það mat auðvitað að vera í höndum þeirra sem eiga þar atkvæðisrétt. Hverjum treystir hv. þm.?