Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:35:41 (1533)

2000-11-09 16:35:41# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég reikna með að hv. þm. eigi við það sem kemur fram á bls. 7 í frv. um fjárhagsleg áhrif tillagnanna á sveitarfélögin miðað við fullnýtingu álagningarheimilda. Hann reiknar sem sagt með því áfram, eins og aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, að öll sveitarfélögin, þar með talin Reykjavík, hækki prósentuna eins og þau mögulega geta. Það er ekki mikið traust á sveitarstjórnum að þær eigi allt í einu núna að fá hærri tekjur, jafnvel þær sveitarstjórnir sem verulega hafa hækkað í tekjum vegna fasteignagjalda. Þar sem þessi breyting veldur engu tekjutjóni sé ég ekki að neitt þurfi að hækka, t.d. í Reykjavík.

Hins vegar: Í sveitarfélögum þar sem fasteignagjöldin lækka vegna þessarar breytingar verður skattalækkun. Þau munu væntanlega mæta því með útsvarshækkun sem mætir skattalækkuninni þannig að skattalækkunin verður sú sama og skattahækkunin, reyndar á öðrum hóp greiðenda eins og ég gat um. Ég sé ekki annað en að víða úti á landi þar sem þetta veldur lækkun á fasteignagjöldum muni útsvarið hækka sem því nemur, þ.e. engin hækkun samtals. Hjá öðrum sveitarfélögum, sérstaklega hér í Reykjavík, muni útsvarið ekki hækkað sem þýðir þá skattalækkun. Það er kominn tími til að skattgreiðandinn fái að sjá einhverja lækkun af þessum afgangi ríkissjóðs.