Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:38:43 (1535)

2000-11-09 16:38:43# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er enn haldinn þeirri meinloku að þegar sveitarfélögin keyra yfir í kostnaði þá verði að hækka útsvarið. Honum dettur aldrei í hug að þau geti sparað eina einustu krónu. Honum dettur ekki í hug að Reykjavíkurborg gæti kannski rekið búskapinn eitthvað betur. Það verða einstaklingar að gera. Ef það vantar pening, ef útgjöld heimilisins aukast þá verða menn að skera niður. Það verður Reykjavíkurborg að gera. Hún getur þá skorið niður eitthvað af sínum framkvæmdum eða rekið starfsemi sína betur.

Hér er gert ráð fyrir því að tekjuskattar lækki og þau sveitarfélög þar sem fasteignagjöldin lækka geti hækkað útsvarið á móti. Um það er ekki að ræða hjá Reykjavík. Reykjavíkurborg verður ekki fyrir þessu tekjutapi þannig að hún mun ekki þurfa að hækka útsvar sitt sem þýðir að skattar í Reykjavík munu lækka um 0,3%.