Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:39:54 (1536)

2000-11-09 16:39:54# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:39]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég veit ekki í hvaða veröld hv. þm. Pétur Blöndal lifir. Þannig er að í dag nýta nær öll sveitarfélögin það hámark sem er til staðar, þ.e. 12,04%. Meðaltalið er 11,96%. Sveitarfélögin nýta þetta m.a. vegna þess að Alþingi hefur á undanförnum árum fært aukin verkefni yfir á sveitarfélögin. Við höfum verið sammála um að gera það hér á Alþingi en að sama skapi hefur það dregist úr hömlu að lagfæra tekjustofna sveitarfélaga. Þó að ég sé ekki sammála þessu frv. að öllu leyti er þarna verið að stíga ákveðin skref.

Hv. þm. sagði að við sýndum vantrú á sveitarfélögunum. Sveitarfélögin eru í þeirri stöðu í dag að þau verða að fá aukna tekjustofna til að sinna lögbundnum hlutverkum. Yfir 70% af tekjum þeirra fara í launagreiðslur. Þau hafa því ekki mikið til framkvæmda og mjög stór hluti af því sem eftir er fer í fastan rekstur sem er lögbundinn.

Hv. þm. sagði að menn veldu sér sveitarfélög eftir skattprósentu. Menn velja sér líka sveitarfélög eftir þeirri þjónustu sem sveitarfélögin geta veitt. Sveitarfélögin eru að sjálfsögðu að uppfylla þær skyldur sem þau hafa gagnvart íbúum sínum með því byggja, t.d. íþróttahús sem ég gat ekki betur heyrt en að hv. þm. teldi hið mesta bruðl.

Ég spyr: Ef af þeirri atkvæðagreiðslu yrði sem hv. þm. nefndi, ef Alþingi samþykkir að færa málefni fatlaðra yfir á sveitarfélögin, á þá að standa þannig að því að greidd verði atkvæði um það hjá sveitarfélaginu hvort hækka megi útsvarsprósentuna til að geta sinnt því lögbundna hlutverki?