Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:43:25 (1538)

2000-11-09 16:43:25# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:43]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Tekjur einstaklinga innan sveitarfélaga eru afar misjafnar. Það er m.a. mjög misjafnt eftir landshlutum. Til eru láglaunasvæði og það segir sig sjálft að tekjur af útsvari eru afar misjafnar hjá sveitarfélögum.

Hv. þm. sagði áðan að hann væri ekki talsmaður Sjálfstfl. Engu að síður hefur málflutningur hans verið svipaður og hæstv. forsrh., formanns Sjálfstfl., sem hefur talað um bölvaða óráðsíu hjá sveitarfélögunum.

Ég bendi á að annar samflokksmaður hv. þm. er formaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Hann hefur rökstutt mjög vel hvers vegna sveitarfélögin þurfi þessa hækkun. Hann reiknar jafnframt með því að hún verði nýtt að fullu og þó að svo verði vanti enn þá um 3 milljarða í rekstur sveitarfélaganna, jafnvel þó þau nýti þessa hækkun að fullu. Þess vegna segi ég að ég skil ekki hvar hv. þm. hefur verið.