Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 16:45:36 (1540)

2000-11-09 16:45:36# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[16:45]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er harla erfitt þegar maður stígur í ræðustól að loknum ræðum hv. þm. Péturs H. Blöndals að festast ekki í þeirri röksemdafærslu eða í andmælum við þeirri röksemdafærslu sem hv. þm. kemur einatt með. Ég ætla að reyna að festa mig ekki í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals en ég get ekki látið hjá líða að nefna það sem andsvar við því sem hv. þm. hefur verið í andsvari við Margréti Frímannsdóttur um að nær öll sveitarfélög eru með útsvar nærri hámarkinu. Hv. þm. Pétur Blöndal ætti að athuga að hámarkið er 12,04% en meðaltalið sem sveitarfélögin nýta sér er 11,96%. Ég gef því lítið fyrir töluna að 43 sveitarfélög af 124 skuli ekki nýta sér hana upp í topp ef það er um núll komma eitthvað prósent að ræða, herra forseti, þannig að hér er verið að skrumskæla staðreyndir.

Sannleikur málsins er sá að ríkisvaldið hefur á undanförnum árum verið á lymskufullan og ísmeygilegan hátt að ýta fjárlagahalla undangenginna ára yfir á sveitarfélögin. Ríkisvaldið er farið að skila þessum fína tekjuafgangi á fjárlögum ríkisins en hvað hefur gerst í staðinn? Sveitarfélögin safna skuldum. Nú er svo komið að sveitarfélögin þurfa í viðbótartekjur á hverju einasta ári til að geta staðið undir rekstri sínum allt að sex milljarða kr. á ári á meðan ríkissjóður skilar tekjuafgangi.

Ég fullyrði því, herra forseti, að ríkið hefur verið að velta fjárlagahallanum yfir á sveitarfélögin með því að samþykkja íþyngjandi lagaákvæði án þess að nægilegir tekjustofnar fylgi með. Það eru auðvitað rekstrarverkefni sem hafa fyrst og fremst verið í fjársvelti. Ég vil varpa þeirri hugmynd fram hér: Hvers vegna fá sveitarfélögin ekki að ræða t.d. möguleikann á því að leggja á hátekjuskatt eða stóreignaskatt í umdæmum sínum ef þau vilja það? Hvers vegna er eingöngu boðið upp á að þau hækki útsvarsprósentuna sína flatt og þvert yfir allt?

Ég vil líka spyrja: Hvers vegna má ekki skoða að hluti eignarskatts fari beinlínis í jöfnunarsjóð? Sú hugmynd er ekki rædd. Nú stendur yfir endurskoðun á bókhaldsmálum sveitarfélaganna og þar er enn verið að íþyngja sveitarfélögunum, t.d. með því að nú er öllum sveitarfélögum gert að sýna húsaleiguna. Ef leikfélagið leigir í félagsheimilinu þá má ekki láta því félagsheimilið í té heldur verður að reikna þetta allt sem kostnað og að því leytinu til eru nýjar bókhaldsreglur sem sveitarfélögunum er gert að fara eftir, líka á þann máta íþyngjandi fyrir sveitarfélögin.

Herra forseti. Nú hef ég látið hv. þm. Pétur H. Blöndal afvegaleiða mig í málflutningi mínum því að svona ætlaði ég ekki að byrja ræðu mína. Nú spóla ég til baka og læt eins og ég sé að byrja upp á nýtt.

Það sem ég ætlaði að gera að aðalumtalsefni í ræðu minni, herra forseti, er að það er ekki rétt sem hæstv. félmrh. heldur fram að almenn ánægja ríki innan sveitarfélaganna með tillögur nefndarinnar sem við erum að fjalla hér um. Það nægir að benda á fskj. með frv. sem við erum að fjalla um hér því að í fskj. II, sem er bókun fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga í tekjustofnanefnd, segir skýrum stöfum, herra forseti, og nú vitna ég til þessa fskj., með leyfi forseta:

,,Harmað er að fulltrúar ríkisvaldsins í nefndinni hafa ekki fallist á að koma nægjanlega til móts við tillögur okkar um að rétta hlut sveitarfélaganna til samræmis við það sem á þau hefur hallað á undanförnum árum þrátt fyrir ítarlegan rökstuðning og kröfur okkar þar að lútandi.``

Þetta er öll ánægja sveitarstjórnarmanna með þessar tillögur. Það sæmir ekki hæstv. félmrh. að koma hér og lýsa yfir að hann hafi verið nánast á hallelújasamkomu um liðna helgi því að sveitarstjórnarmenn eru afar misánægðir með þetta. Það kemur í ljós í þessari bókun fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga í tekjustofnanefndinni.

Í þessari bókun er sömuleiðis lögð áhersla á að fjármálaleg samskipti ríkisins og sveitarfélaganna séu stöðugt til umfjöllunar og mig langar til að vitna aftur í þessa bókun, herra forseti, með yðar leyfi. Þar segir:

,,Við treystum því að viðvarandi formlegt samstarf ríkis og sveitarfélaga verði um efnahagsmál þar sem fjallað er um þróun í fjármálum og kjaramálum, sbr. yfirlýsingu aðila frá 16. desember 1999.``

Ég lýsi því yfir, herra forseti, það er svo sannarlega nauðsyn á að þessu verði fylgt því að samráðið hefur ekki verið nægilegt og reyndar harla lítið hingað til. Ég vil jafnvel fullyrða, herra forseti, að samstarf ríkisins í þessum málum, í þessum álögum, aukaálögum á sveitarfélögin, samstarfið og samráðið hafi verið skammarlega lítið. Um það vitna yfirlýsingar sveitarstjórnarmanna víða að af landinu.

Áður en ég lýk umfjöllun minni, herra forseti, um bókun fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga í tekjustofnanefnd kemur fram í niðurlagi þeirrar bókunar að nefndarmennirnir treysta því að framvegis verði kostnaðarmetin öll lagafrumvörp og stjórnvaldsákvarðanir er sveitarfélögin varða eins og gert er ráð fyrir í tillögu nefndarinnar og undirritun við tillögurnar. Sveitarstjórnarmennirnir telja að slíkt kostnaðarmat geti verið skref í áttina til frekari eflingar tekjustofnum sveitarfélaganna.

Ég leyfi mér, herra forseti, að hryggja sveitarstjórnarmenn með því að kostnaðarmat af því tagi sem hér er farið fram á og menn setja traust sitt á virðist vera harla léttvægt í störfum ríkisstjórnarinnar því að lögum samkvæmt fylgir öllum lagafrumvörpum slíkt mat og það hefur verið gagnrýnt á Alþingi að kostnaðarmat af því tagi stenst allt of sjaldan. Ég bendi bara á fjáraukalögin því til staðfestu. Ég er ansi hrædd um að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga í tekjustofnanefnd eigi eftir að verða fyrir vonbrigðum með möguleg áhrif svona kostnaðarmats.

Ég vil meina, herra forseti, að mestum vonbrigðum í allri þessari umræðu í dag hafi valdið það ótrúlega bragð hæstv. félmrh. og reyndar hv. formanns félmn. að tala eins og þjóðinni sé gert kleift að fjármagna auknar skattaálögur með barnabótum og feðraorlofi. Herra forseti, mér finnst það ekki sæmandi málflutningur að það sé notað eins og afsökun fyrir álögunum að nú sé verið að hækka barnabæturnar. Ég minni ég enn og aftur á að hækkun barnabótanna er bara tilbúningur því það er einungis verið að skila barnafjölskyldum aftur það sem þeim hefur borið undanfarin ár og hefur verið frá þeim tekið. Þessi málflutningur er því til skammar, herra forseti. Hér er aldeilis verið að blanda saman óskyldum málum og það er ekki rétt að líða svona málflutning átölulaust.

Það má kannski vitna til orða hv. þm. Guðmundar Árna Stefánsson, sem situr reyndar núna í forsetastóli, sem hann lét falla í morgun að ríkisstjórnin væri að skila til baka ránsfeng. Þetta eru stór orð, herra forseti, en það er nákvæmlega svona sem fólki líður þegar það fær röksemdafærslu af þessu tagi frá hæstv. félmrh.

Ég vil einnig spyrja hæstv. félmrh. hvað valdi því að sveitarfélögin fái ekki hlutdeild í tryggingagjaldi eða tekjustofnum fyrirtækja. Hvað veldur því að sveitarfélögin eru fá ekki hlutdeild í veltusköttum? Hvaða rök mæla á móti því? Ég vil sömuleiðis spyrja hæstv. félmrh.: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að leysa þann hnút sem félagslega íbúðakerfið er komið í? Hvernig verður t.d. stuðningi háttað við þá sem þurfa að reiða sig á félagslegt leiguhúsnæði? Efnisleg umræða um þessi mál er af skornum skammti, herra forseti, og það er sárt til þess að vita að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki svara henni með rökum. Það er sárt til þess að vita, eins og hefur margoft verið bent hér á, að málefnaleg umræða í þessum sal við þingmenn stjórnarinnar getur ekki farið fram vegna fjarveru þingmanna stjórnarflokkanna. Hér hefur stjórnarandstaðan staðið í allan dag með röksemdafærslur og spurningar og það er ekki við neinn að tala, það eru engin svör. Þetta er ekki málefnaleg umræða, herra forseti, og ber að átelja það.

Það eru mikil vonbrigði, herra forseti, að ríkið skyldi ekki fallast á að lækka hlutfall sitt í tekjuskattinum til móts við hækkun á útsvari, það eru vonbrigði að ríkið skyldi ekki fallast á að lækka hlutfall sitt í tekjuskattinum. Ég krefst þess að ríkisstjórnin gefi okkur rök fyrir því að það var ekki gert. Ég bendi á að samkvæmt spám Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin verði rekin með tapi um rúma þrjá milljarða á næsta ári. Ég vil fá að vita: Hverju svarar Framsfl. öllum þeim spurningum sem hér hafa komið fram?

Herra forseti. Ég held því fram að málaflokkum, sem færðir hafa verið til sveitarfélaganna eða er í undirbúningi að færa til sveitarfélaganna, er beinlínis haldið í svelti áður en að yfirfærslunni kemur. Þar getum við nefnt menntamálin, við getum nefnt þar skólamálin því að málaflokknum var beinlínis haldið í svelti og sultarólina var beinlínis ekki hægt að þrengja meira þegar loksins kom að því að færa grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Nú eru sömu vísbendingar uppi á teningnum, herra forseti, hvað varðar málefni fatlaðra. Sá málaflokkur hefur líka þurft að lúta svelti frá hinu opinbera. Nú er verið að færa hann yfir til sveitarfélaganna og þá er alveg ljóst að sultarólin er hert ómaklega áður en málaflokkurinn er settur endanlega yfir til sveitarfélaganna og þær aðferðir eru ekki góðar pönnukökur, herra forseti.

Það er líka eitt í umræðunni, herra forseti, að hæstv. félmrh. og ríkisstjórnin öll virðist ekki ætla að horfa á þann mismun sem er á sveitarfélögum með tilliti til íbúafjölda. Það er alveg ljóst að fámennari sveitarfélögin líða mest. Ég bendi á það að helmingur sveitarfélaga í landinu telur undir 300 íbúa. Máli mínu til staðfestu um að fámennu sveitarfélögin líði mest nægir að nefna kostnað sveitarfélaganna af menntamálunum því að sannleikurinn er sá að kostnaður á nemanda í litlu skólunum úti á landi er um 900 þús. kr. á meðan kostnaður á nemanda í stærstu sveitarfélögunum er undir 300 þús. kr. Þarna er um 600 þús. kr. mun að ræða á kostnað á hvern nemanda hvað fámennu sveitarfélögin þurfa að borga meira en þau sem eru fjölmenn. Það þýðir ekki, herra forseti, að líta fram hjá þessari staðreynd. Sveitarfélögin búa við afar misjöfn skilyrði hvað þetta varðar.

Ég bendi líka á það að 40% af tekjum sveitarfélaganna renna til fræðslumála. Benda má á að það sem rennur til fræðslumála hjá sveitarfélögunum er svo breytilegt frá einu sveitarfélagi til annars að þau framlög eru á bilinu frá 30% af tekjum upp í 160%, bilið á milli fámennu sveitarfélaganna og þeirra fjölmennu. Þetta er því gífurlegur aðstöðumunur. Tillögurnar sem eru á borðum okkar eru ekki að jafna þennan mun. Það er ekki verið að taka á stærsta vandamáli litlu sveitarfélaganna, það er bara þannig, herra forseti, og það er synd til þess að vita. (Félmrh.: Það er sérstök nefnd í grunnskólamálinu.) Jæja, það er gott að heyra frá hæstv. félmrh. að það skuli vera sérstök nefnd í grunnskólamálinu. Það bendir til þess að vandinn sé viðurkenndur. En sú viðurkenning kemur ekki fram í þessum tillögum hér. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég vil frábiðja mér samtal í salnum á meðan ég er að ljúka máli mínu. En sannleikurinn er sem sagt sá að á borðum okkar eru tillögur sem eru allsendis óaðgengilegar fyrir fámennustu sveitarfélögin og þar er ekki tekið á vanda þeirra á þeim nótum sem þyrfti að gera. Það er staðreynd að í heild skortir sveitarfélögin 6--7 milljarða kr. í árlegar tekjur og tillögurnar sem eru á borðum okkar taka á hluta vandans en að mínu mati rista þær alls ekki nógu djúpt og hefði verið mun vænlegra að sjá hér betur gert fyrst og síðast við fámennu sveitarfélögin og lýk ég þar með máli mínu.