Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 17:00:37 (1541)

2000-11-09 17:00:37# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[17:00]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var margt afar merkilegt sem fram kom í ræðu hv. þm. Hún nefndi að ég hefði talað um barnabæturnar í ræðu minni sem er alveg rétt. Ég tel rétt að vekja athygli á því að barnabæturnar eru þáttur því sem við erum að gera til að bæta líf fjölskyldufólks í landinu og hafa áhrif á þær skattalagabreytingar sem unnið er að um þessar mundir. Og ég tel enga sérstaka ástæðu til þess að fela það neitt og ætla að vona að hv. þm. styðji þessar úrbætur á barnabótakerfinu.

Ég nefndi hins vegar aldrei feðraorlofið í ræðu minni og finnst það nú ekki koma þessu máli beint við. Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þm. að full ástæða er til að halda því á lofti sem vel er gert varðandi fæðingarorlofið. Það er stórmál og mikil réttarbót fyrir barnafjölskyldur í landinu að verið er að koma á fót mjög merkilegum fæðingarorlofssjóði sem menn víða um lönd hafa tekið eftir og ræða mjög gjarnan um sem fyrirmynd. Það er afrek núverandi ríkisstjórnar og þingmeirihluta að hafa gert þetta og full ástæða til, ég þakka hv. þm. fyrir það, að halda því á lofti.

Hins vegar skil ég ekki hvernig hún ætlar að koma á háttekjuskatti í sveitarfélögum, sem hún kallaði mjög stíft eftir að yrði lagður á, en jafnframt krafðist hún þess að tekjuskattsprósentan yrði lækkuð. Það sérstæðasta sem fram kom í ræðu hennar fannst mér reyndar þegar hv. þm. fór að draga það fram að bókhaldsreglur sveitarfélaga væru sérstaklega útgjaldamiklar og íþyngjandi fyrir sveitarfélög. Ég hef haldið bókhald og verið fjármálastjóri en ég get ekki séð að það sé mjög útgjaldamikið fyrir sveitarfélögin.