Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 17:05:59 (1544)

2000-11-09 17:05:59# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[17:05]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. misskilur þetta varðandi fæðingarorlofið og barnabæturnar. Ég er ekki að mæla gegn því að fæðingarorlofi feðra sé komið á, svo sannarlega ekki. Ég er hins vegar að mæla gegn því að hér séu notuð þau rök að hækkun barnabóta og innleiðing fæðingarorlofs fyrir feður séu eitthvað sem þurfi að tala um í sama orðinu og þær tillögur sem hér liggja á borðinu. Við erum að tala um auknar skattaálögur og stjórnarþingmenn kjósa að fjalla í sama orðinu um barnabætur og peninga sem fjölskyldur fá í gegnum fæðingarorlof feðra. Í mínum huga þýðir það ekkert annað en að fjölskyldunum sé ætlað að nota væntanlegar barnabætur og greiðslur í fæðingarorlofi feðra í að greiða auknar skattaálögur. Þetta var ég að gagnrýna, tengsl þessara mála og hvernig þau eru spyrt saman af hæstv. félmrh. og þingmönnum stjórnarinnar.

Varðandi bókhaldsnámskeiðið þá skal ég taka hv. þm. í það síðar.