Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:01:43 (1551)

2000-11-09 18:01:43# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða er orðin nokkuð löng og ströng og margt verið sagt í henni og hún er kannski að stærstum hluta tæmd. En ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég bað um orðið er fyrst og fremst sú að mig langaði að velta upp þeirri spurningu við hæstv. félmrh. hvort sú leið sem hér er farin hafi ekki margoft verið reynd og í raun og veru fátt nýtt í henni.

Það er nú einu sinni þannig, virðulegi forseti, að á hinu háa Alþingi og víðar í samfélaginu hefur frekar lítil umræða farið fram um hlutverk ríkis og sveitarfélaga og þá stjórnskipun og það fyrirkomulag sem hér ríkir og samskipti þessara aðila því að kjarni málsins er sá að við á hinu háa Alþingi og ríkisvaldið þar með höfum það nánast í hendi okkar hvaða verkefni sveitarfélögunum er falið að framkvæma. Því er það svo að þau vandræði sem sveitarfélögin eru komin í eru kannski að stórum hluta Alþingi og löggjafarvaldinu að kenna. Því fór þessi umræða af stað á sínum tíma að nauðsynlegt væri að jafna þarna tekjuskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga og því var sú nefnd sem margoft hefur verið rætt um í þessari umræðu, svokölluð tekjustofnanefnd, sett á laggirnar í því skyni að tryggja að sveitarfélögin fengju meira af þessari köku.

Svo virðist sem menn hafi ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en þeirri sem hér liggur fyrir, þ.e. að hækka skatta. Það virðist vera eina hugmyndin sem hæstv. ríkisstjórn hefur í þeim vandræðum sem hún stendur frammi fyrir, að hækka skatta þrátt fyrir, að sögn a.m.k., að ríkissjóður hafi aldrei verið betur haldinn af fé en einmitt núna. Því hefði maður haldið í ljósi þeirra miklu verkefna sem hafa verið sett yfir á sveitarfélögin, í ljósi þess að óháðir aðilar hafa farið yfir það mjög vandlega hvaða fjármunir hafa fylgt þessum verkefnum og komist að þeirri niðurstöðu að til þess að sveitarfélögin geti sinnt þessum verkefnum sem skyldi þurfi sveitarfélögin meira fé. Því hefði ég haldið, virðulegi forseti, að á þessum tímapunkti við þessar aðstæður í íslensku samfélagi hefði verið ástæða til að leita fleiri leiða. Það hefði verið ástæða til þess að skoða það hugsanlega hvort sveitarfélögin hefðu ekki mátt koma meira inn í veltuskatta og enn fremur kannski að ræða hvort ekki mætti jafnvel gefa sveitarfélögunum meira svigrúm hvað varðar þau verkefni sem þeim hafa verið falin og hvernig þau framkvæmi þau. Að stærstum hluta er eiginlega ákveðið fyrir fram á hvern hátt sveitarfélögin eiga að framkvæma vissa þjónustu og um leið er verið að ákveða hvað kostar að framkvæma þá þjónustu.

Því hefði ég haldið, virðulegi forseti, að í þeirri stöðu sem upp er komin hefði verið tilefni til þess að leita nýrra leiða og jafnvel að velta því upp hvort sveitarfélögin ættu að koma inn í einhverja veltuskatta, en þó hefði ég kannski frekar viljað sjá að opnað yrði á það að heimila sveitarfélögunum að framkvæma þá þjónustu og þau verkefni sem þeim eru falin á þann hátt sem þeim hentar best því að í samskiptum sveitarfélaga og ríkisins er það algjörlega á valdi löggjafans á hvern hátt sveitarfélögunum er ætlað að framkvæma þjónustu sína.

Því velti ég þeirri spurningu upp, virðulegi forseti, í ljósi þess að eina leiðin sem hæstv. ríkisstjórn virðist finna í þessum ógöngum er að hækka skatta, hvort það hafi ekki komið til í þessari umræðu að skoða þann möguleika að löggjafarvaldið --- hvað eigum við að segja --- linaði takið, gæfi örlítið eftir að því er varðar hvernig þessi verkefni eru framkvæmd því að hér er í rauninni ekki á ferðinni neitt annað en uppgjöf gagnvart verkefninu og ekkert annað. Það eina sem ríkisstjórninni dettur í hug er að hækka útsvarið í þeim vandræðum sem sveitarfélögin eru komin í. Í ljósi þess góðæris sem hér hefur ríkt undanfarið hefði maður haldið að einhvers staðar væru einhverjir fjármunir aflögu og því hefði kannski verið hægt að leita annarra leiða en að leggja auknar álögur á einstaklingana.

Ég veit ekki betur, virðulegi forseti, en að hæstv. fjmrh., sem greinilega hefur ekki séð sér fært að vera við umræðuna, hafi gortað af tugum milljarða í afgang í umræðu um fjárlög. Það er því alveg ljóst að víða er hægt að leita fanga. En það eina sem hæstv. ríkisstjórn kemur upp með er að í stað 12,04% heimildar sveitarfélaga til útsvars skuli það vera 13,03%, það er allt og sumt. Það er allt og sumt sem þessi ríkisstjórn hefur fram að færa í þessu máli sem snýst fyrst og síðast um það að sveitarfélögin hafa verið látin hafa miklu meiri verkefni en fylgt hafa fjármunir. Það er einfaldlega kjarni málsins.

En af einhverjum ástæðum, mér ókunnugum, er ákveðið að fara þessa leið og maður hlýtur að velta því fyrir sér, virðulegi forseti, í ljósi þess að þetta er bara plástur, þetta er gömul margreynd leið sem í rauninni á sér enga framtíð, hvort það sem hér er á ferðinni sé fyrst og fremst pólitískur gambítur íhaldsins gagnvart R-listanum. Er það allt og sumt sem hér er á ferðinni?

Ég ætla að vona, virðulegur forseti, að svo sé ekki og sérstaklega í ljósi þess að hæstv. félmrh. þekkir betur til R-listans en flestir aðrir, en það er í rauninni það eina sem manni kemur til hugar að hvíli að baki hugmyndum eins og þeirri sem hér er að finna.

En ég vænti þess, virðulegi forseti, og það var fyrst og fremst erindi mitt upp í þennan ræðustól, að hæstv. félmrh. upplýsi okkur í þessari umræðu hvort ekki hafi komið fram í ríkisstjórninni aðrar hugmyndir en sú sem hér er til þess að leita leiða til að koma á móts við að sveitarfélögin eru með fleiri verkefni, þau eru lögbundin mjög massíft og þannig úr garði gerð að þau geta ekki framkvæmt þau miðað við það fjármagn sem þau hafa. Þetta er í rauninni, virðulegi forseti, sú eina spurning sem ég vildi beina til hæstv. félmrh.