Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:09:54 (1552)

2000-11-09 18:09:54# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur nú staðið lengi dags og verið um margt nokkuð fróðleg. Hún hefur aðallega verið borin uppi af þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa tekið til máls og greinilega láta sig varða málefni sveitarfélaganna talsvert miklu meira en þingmenn stjórnarflokkanna.

Að mínu viti, herra forseti, snýst þetta mál um tvennt. Annars vegar snýst það um að Sjálfstfl. er að beita sér fyrir verulegri skattahækkun sem nemur á suðvesturhorninu fast að 1,6 milljörðum eins og hér hefur komið fram og það þýðir í reynd að fimm manna fjölskylda gæti þurft að greiða allt að 50 þús. kr. í aukaskatt. Á hinn bóginn, herra forseti, sýnist mér þetta líka snúast um það að stjórnarflokkarnir eru að ganga á bak ákveðnum loforðum sem þeir hafa gefið.

Í fyrsta lagi gáfu þeir út yfirlýsingar sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en svo að ganga ætti í að skipta upp tekjustofnum með þeim hætti að sveitarfélögin fengju til sín það sem þau þyrftu til þess að geta starfrækt þjónustu í því breytta umhverfi sem hefur skapast á síðustu árum, ekki síst vegna þeirra breytinga sem hafa verið samþykktar á hinu háa Alþingi að frumkvæði ríkisstjórnarinnar.

Í annan stað heyrist mér ekki betur á því sem hæstv. félmrh. hefur sagt í dag en að Framsfl. sé í reynd að ganga á bak þeirra orða og loforða sem hann gaf um bætur til barnafólks í gegnum svokölluð barnakort.

Í þriðja lagi, herra forseti, fæ ég heldur ekki betur séð en að ríkisstjórnin sé í reynd að brjóta það loforð sem hún gaf í stjórnarsáttmálanum sem kynntur var þegar núv. ríkisstjórn tók við störfum, en þar var því lýst yfir að lækka ætti fasteignaskatta á landsbyggðinni.

Um það finnst mér að þetta mál snúist, herra forseti, í fyrsta lagi um skattahækkun Sjálfstfl., sem kemur langverst niður á íbúum suðvesturhornsins, og í öðru lagi um ákveðnar vanefndir á loforðum sem hér hafa komið fram áður af hálfu stjórnarflokkanna. Dylst einhverjum að það sé verið að hækka skatta? Að sjálfsögðu ekki.

Tekjustofnanefndin komst að því eftir mikla yfirlegu að u.þ.b. 4--6 milljarða skorti til þess að sveitarfélögin gætu haldið uppi þeirri þjónustu sem þeim ber lögum samkvæmt. Hvernig brást ríkisstjórnin við þeirri niðurstöðu? Ja, hún beitti auðvitað ítökum sínum í nefndinni til þess að þar var að meiri hluta fallist á tiltekna tillögu sem gengur bara út á það eitt að sveitarfélögin eru knúin til þess að hækka skatta.

Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir gat þess í dag í stuttu andsvari að ómaklegt væri að halda því fram að hér væri hæstv. ríkisstjórn að fara fjallabaksleið til þess að hækka skatta vegna þess að í tillögunum sem við erum að ræða fælist einungis heimild til sveitarfélaganna til þess að hækka útsvar um tiltekna prósentu. Það væri síðan, sagði hv. þm., formaður þingflokks Sjálfstfl., sveitarfélögunum í sjálfsvald sett hvort þau fullnýttu þessa heimild eða ekki.

Herra forseti. Ég held að hæstv. félmrh. hafi í raun svarað þessari yfirlýsingu hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur með upplýsingum sem hann veitti í framsögu sinni í dag. Þá gat hann þess að það væru ekki nema sex sveitarfélög sem hefðu tekið upp lámarksútsvar, en 81 sveitarfélag hefði talið nauðsynlegt að fullnýta útsvarsheimild sína. Þetta þýðir einfaldlega, herra forseti, að sveitarfélögin eru svo hart keyrð að þó að mikill vilji sé innan þeirra að fara með eins mikilli spekt í útsvarshækkunum og hægt er eru þau knúin til þess að notfæra sér heimildir sínar til fullnustu til þess að geta staðið fyrir þeirri þjónustu sem þeim ber lögum samkvæmt.

Það er því alveg ljóst að ríkisstjórnin er að fara fjallabaksleið til þess að leysa vandkvæði sveitarfélaganna með því að knýja þau út í skattahækkun. Og auðvitað er það fyrst og fremst Sjálfstfl. sem hefur beitt sér fyrir því, herra forseti. Hann telur að sér sé ekki stætt á því að fara þá leið sjálfur að leggja fram tillögu um skattahækkun á þinginu til að mæta þessu og hann treystir sér ekki til að skera niður í útgjöldum ríkisins á móti þessu og þess vegna er það svo að hann notar garminn hann Ketil, Framsfl., til að leggja fram þessa tillögu hér í dag.

[18:15]

Það er ekki nema von að fallegt bros læðist á varir hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur yfir því hvernig henni og hv. þm. Sjálfstfl. hefur tekist að leika Framsfl. í þessu máli. Það hefur einfaldlega komið fram að það hefur verið betri vilji af hálfu Framsfl. til að leysa þetta mál en innan Sjálfstfl. En þegar upp var staðið gerðist það sem svo oft hefur gerst að Framsfl. varð undir í þessu máli. og Sjálfstfl. hrósar sigri.

Hæstv. fjmrh. sagði heldur digurbarkalega, fannst mér, í dag að menn gætu velt því fyrir sér hvort hér væri um skattahækkanir að ræða. Mér þótti það hreystilega mælt af hæstv. ráðherra, ekki síst vegna þess að hann gaf síðan sjálfur upplýsingar í ræðu sinni sem gátu ekki annað en hnekkt fyrri yfirlýsingu hans. Hann sagði að ef sveitarfélögin fullnýttu heimild sína til útsvarshækkunar mundi það þýða, fyrir einstakling með tvær milljónir í árstekjur, útsvarshækkun upp á 6 þús. kr. Nú er það reyndar svo, herra forseti, að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur sýnt fram á það með rökum sem ekki hafa verið vefengd við þessa umræðu að á suðvesturhorninu muni útsvarshækkunin, ef heimildir eru fullnýttar, leiða til samanlagðrar skattahækkunar upp á 1,6 milljarða, ekki fela í sér 6 þús. kr. hækkun á einstakling heldur fast að 10 þús. kr. Að meðaltali mundi fimm manna fjölskylda greiða um 50 þús. kr. til viðbótar. Í fyrsta lagi hefur hæstv. félmrh. í raun svarað spurningu sinni sjálfur. Hann hefur lýst því yfir að þetta felur í sér skattahækkun ef sveitarfélögin fullnýta heimildir sínar.

Í öðru lagi hefur verið bent á það af fulltrúa Samfylkingarinnar, sem hafði sérstöðu í tekjustofnanefndinni, að í reynd er þessi hækkun miklu meiri fyrir tiltekinn hluta landsins, þ.e. hér á suðvesturhorninu mun fimm manna fjölskylda þurfa að sæta útsvarshækkun upp á 50 þús. kr. að meðaltali.

Ég spyr hæstv. félmrh.: Treystir hann sér til þess að vefengja þessar tölur hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar? Hann hefur ekki gert það við umræðuna hér í dag. Hins vegar sagði hæstv. ráðherra að á móti þessu kæmu aðrar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar sem í reynd fælu það í sér að ekki væri um raunhækkun að ræða að meðaltali. Ástæðan fyrir því var sú, sagði hæstv. ráðherra, að hér liggja líka fyrir tillögur um að hækka barnabætur líkt og Framsfl. hafði lofað eins og hann sagði. Það er alveg rétt. Var það ekki Framfl., herra forseti, sem lofaði að bæta kjör barnafólks með sérstökum barnakortum þar sem hækka átti barnabætur? Jú, það var Framsfl.

En hvað er að gerast hérna, herra forseti? Eins og fram hefur komið í þessari umræðu og hefur heldur ekki verið vefengt af hæstv. félmrh. eða öðrum þeim sem hér tala af hálfu ríkisstjórnarinnar þá á vissulega að veita ákveðnum hópi barnafólks nokkrar kjarabætur. Þær kjarabætur ná því þó ekki samanlagt sem þessi ríkisstjórn tók af barnafólki árið 1997. Það sem meira er: Heildarupphæðin þeirra er um 2 milljarðar. Hins vegar liggur ljóst fyrir að heildarskattahækkun ríkisstjórnarinnar að fullnýttum heimildum og frádreginni 0,33% tekjuskattslækkun sem í þeim felst þýðir skattahækkun upp á 2,5 milljarða.

Herra forseti. Hækkun ríkisstjórnarinnar á barnabótum er minni en sem nemur sakattahækkunum. Með öðrum orðum: Barnakortin koma ekki til framkvæmda. Framsfl. hefur heykst á því að efna loforð sín gagnvart barnafólki. Það sem hann veitir barnafólki með hægri hendinni núna er tekið til baka með vinstri hendi í formi þeirra skattahækkana sem hér er um að ræða.

Hið sama gildir um lækkun á fasteignaskatti á landsbyggðinni. Í samstarfsyfirlýsingu sinni lofuðu Framsfl. og Sjálfstfl. að lækka fasteignaskatta á landsbyggðinni. Það kemur fram, herra forseti, að sú tillaga sem hér liggur fyrir, að ég hygg eini partur tillögu stjórnarflokkanna sem fulltrúi Samfylkingarinnar, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, mælti með, felur í sér að fasteignaskattur á landsbyggðinni verður samkvæmt tillögunni miðaður við raunverulegt fasteignaverð. Það er auðvitað fagnaðarefni, herra forseti. En í reynd þýðir þetta ekki að meðaltali breytingu fyrir fólkið á landsbyggðinni. Á móti þessu kemur þessi útsvarshækkun. Þegar saman eru lagðir fasteignaskattarnir sem lækka á landsbyggðinni og síðan útsvarshækkunin sem ríkisstjórnin þrýstir í gegn með þessari tillögu sinni eru menn jafnstaddir á eftir.

Í reynd þýðir þetta, herra forseti, að ríkisstjórnin þykist hafa uppfyllt loforð sín um að lækka fasteignaskatta á landsbyggðinni en hefur í raun svikið loforðið vegna þess að þar eru engar umtalsverðar, mælanlegar kjarabætur sökum útsvarshækkunarinnar sem á móti kemur. Það sama gildir um barnakortin sem hæstv. félmrh. hefur gumað af að hann sé að koma í gegn á hinu háa Alþingi. Þær bætur sem barnafólkið fær eru teknar til baka með þessari útsvarshækkun.

Ég tek, herra forseti, undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem spurði hérna áðan: Hvers eiga Reykvíkingar að gjalda? Hvers eiga þeir að gjalda sem búa á suðvesturhorninu? Hvað hafa þeir til saka unnið til þess að hæstv. ríkisstjórn ráðist sérstaklega á þessa borgara landsins? Hér er um að ræða sérstaka árás ríkisstjórnarinnar á íbúa suðvesturhornsins þó hvergi komi fram hvað þeir hafa til saka unnið. Ég get mér ekki til um neinar slíkar sakir. Það er hins vegar alveg ljóst, eins og fram hefur komið, að þessar tillögur fela í sér sérstaka skattlagningu á suðvesturhornið upp á 1,6 milljarða kr. Það þýðir 50 þús. kr. skattahækkun á hverja fimm manna fjölskyldu. Þetta hefur komið fram í umræðunum hér í dag, herra forseti, og hæstv. félmrh. hefur ekki treyst sér til þess að mótmæla því.

Engum dylst, allra síst þeim sem sátu í tekjustofnanefndinni, að sveitarfélögin hafa átt við talsverðan vanda að stríða í fjármálum sínum. Þar hefur verið um að ræða langvarandi hallarekstur. Flestum er þetta ljóst. Það var ekki deilt um það, herra forseti, í tekjustofnanefndinni að sá vandi væri ærinn.

Í skýrslu tekjustofnanefndarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Frá og með árinu 1991 er á hinn bóginn ljóst að útgjöld sveitarsjóðanna hafi ekki verið í takt við bókfærðar tekjur þeirra og má segja að allan síðasta áratug hafi sveitarsjóðirnir ár hvert verið reknir með halla.``

Á öðrum stað í skýrslunni segir að rekstrargjöld, að meðtöldum fjármagnsgjöldum, hafi á hinn bóginn aukist um 97,4% að raungildi á þessu tímabili. Þar kemur líka fram að á sama tíma og rekstrargjöldin eru að aukast um næstum því 100% hafa bókfærðar tekjur sveitarsjóðanna aðeins aukist um 69%. Herra forseti. Það sjá allir að eitthvað hlýtur undan að láta þegar staðan er svona.

Það kemur líka fram og er ekkert umdeilt af hálfu þeirra sem í nefndinni sátu að aukin vaxtabyrði sveitarsjóðanna, sem er umtalsverður baggi á þeim, er bein afleiðing af verulegri skuldaaukningu þeirra í kjölfar hallareksturs á tímabilinu 1990--1999. Á þessu tímabili, herra forseti, hefur peningaleg staða þeirra versnað um 21 milljarð kr. Hvernig bregst síðan hæstv. ríkisstjórn við í mesta góðæri lýðveldissögunnar við aðstæður þar sem ríkissjóður er rekinn með meiri tekjuafgangi en nokkru sinni fyrr? Hún bregst ekki við með því að reyna að afsala sér tekjum til sveitarsjóðanna, til sveitarfélaganna, sem hefði verið eðlilegt miðað við hin auknu verkefni sem þeir hafa fengið frá ríkinu. Nei, hún bregst við með skattahækkunum. Þetta er auðvitað fordæmanlegt, herra forseti, og þess vegna tek ég hjartanlega undir þá tillögu sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur raunar flutt fyrir hönd Samfylkingarinnar í þessari umræðu, að tekjuskatturinn sem ríkissjóður fær lækki nákvæmlega til jafns við það sem þarf til að bæta sveitarstjórnunum upp aukin útgjöld og tekjumissi.

Herra forseti. Það sem veldur þessum auknu útgjöldum og aukinni þörf sveitarfélaga fyrir fjármagn frá ríkinu eru kvaðir sem hafa verið lagðar á herðar sveitarfélaganna með lögum sem hafa verið samþykkt á þessu þingi, yfirleitt að frumkvæði hæstv. ríkisstjórnar. Það kemur margt til greina, herra forseti, en það er einn hlutur sem ég vil sérstaklega nefna hér. Það eru tilskipanir Evrópusambandsins um fráveitur sveitarfélaga sem á síðustu árum hafa sennilega kostað sveitarfélögin um 6--7 milljarða. Heildarkostnaðurinn, miðað við þær skýrslur sem fyrir liggja, gæti orðið 10 milljarðar kr. og skiptist jafnt milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Hér er um gríðarlegar upphæðir að ræða.

Á sínum tíma tókst að koma í gegnum Alþingi lögum sem gerðu að verkum að sveitarfélögin fá þó endurgreitt það sem nemur ígildi virðisaukaskatts á þessar framkvæmdir. Eigi að síður er ljóst að þarna er um að ræða mjög umfangsmiklar framkvæmdir sem kosta gríðarlega mikið. Hver var uppruni þeirra laga? Hann var hér á hinu háa Alþingi. Undirrót þessa var auðvitað að Alþingi samþykkti að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og samþykkti í framhaldi ákveðin lög sem vissulega fólu í sér mikið framfaraspor. Hins vegar er ljóst að þarna er um að ræða kostnað sem er upprunninn í sölum hins háa Alþingis.

Í öðru lagi, herra forseti, nefni ég það að hér á þinginu voru samþykktar breytingar á skattalögum sem höfðu það í för með sér að sveitarfélögin urðu af umtalsverðum tekjum. Ég held að minni mitt bresti ekki þegar ég held því fram að innan tekjustofnanefndarinnar hafi verið samstaða um að þetta næmi fast að 2 milljörðum á ári. Þarna er um að ræða umtalsverðar tekjur sem sveitarfélögin missa vegna þess að hið háa Alþingi, að frumkvæði þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, samþykkti ákveðin lög sem svipta sveitarfélögin tekjum. Á sama tíma og Alþingi samþykkir lagagerninga sem leiða til minni tekna sveitarfélaganna er hið sama Alþingi að samþykkja önnur lög sem leggja sveitarfélögunum á herðar enn meiri útgjöld á ýmsum sviðum, sérstaklega á sviðum félagsþjónustu.

Gerð hefur verið úttekt á því hvernig þjónustubyrði sveitarfélaganna í félagsþjónustu hefur breyst á árunum 1990--1991. Hún leiðir í ljós að byrðin og kostnaðurinn hefur aukist, ekki bara um 10%, ekki 20% og ekki 50%, ekki 70% heldur um 100%. Það er ljóst, herra forseti, að hér er um að ræða mikið af breytingum í rekstrarumhverfi sveitarfélaganna sem þau eiga enga sök á sjálf, sem þau hafa ekki óskað eftir heldur hafa verið ákveðnar hér af hinu háa Alþingi. Þess vegna fannst mér að það nokkuð umhendis þegar hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður þingflokks Sjálfstfl., hélt því fram að sveitarfélögum væri í sjálfsvald sett hvort þau notfærðu sér þær heimildir sem hér er verið að samþykkja. Þau eiga ekki annars úrkosti en að fara þessa leið.

Það liggur fyrir að árum saman hefur hallað á sveitarfélögin, þarna hefur orðið alvarlegt misvægi. Lengi virtist sem samstaða væri um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu að ná landi í þessum málum. Vísi að þeirri samstöðu má sjá í því að innan tekjustofnanefndarinnar urðu menn sammála um að sveitarfélögin vantaði 4--6 milljarða á ári.

Herra forseti. Niðurstaðan er auðvitað sárgrætileg. Hún er sú að hæstv. ríkisstjórn, að frumkvæði Sjálfstfl., ætlar sér að leiðrétta þetta misvægi með því að knýja í gegn skattahækkanir á landsmönnum, skattahækkanir sem munu koma langverst niður á íbúum suðvesturhornsins sem þurfa að borga sérstakan skatt upp á 1,6 milljarða sem felur í sér 50 þús. kr. aukna skattheimtu á sérhverja fimm manna fjölskyldu. Herra forseti. Ég hlýt að mótmæla.