Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:48:07 (1556)

2000-11-09 18:48:07# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:48]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst satt að segja hæstv. ráðherra ekki sæmandi að vera með svona útúrsnúninga. Á bls. 34 í þessari skýrslu sem tillögugerð ráðherra sjálfs byggir á er gerð nákvæmlega grein fyrir því, ef heimildir verða nýttar til fullnustu, hvernig tekjur falla til einstakra sveitarfélaga, einstakra svæða og einstakra kjördæma og með öðrum orðum hvernig skattgreiðendur eigi að borga brúsann. Þar kemur einfaldlega fram að í Reykjavík og á öðrum svæðum höfuðborgarsvæðisins eru þessar auknu álögur upp á 2,5 milljarða kr. og rúmlega það. Mildandi áhrif vegna þriðjungslækkunar á tekjuskatti á móti eru upp á 800 milljónir. 1.600 milljónir standa eftir.

Getum við ráðherra, virðulegi forseti, ekki orðið sammála um það að þegar 160 þúsund manns eiga að standa skil á þeim greiðslum þá séu þær að meðaltali 10 þús. kr. á hvern íbúa? Það stendur í skýrslunni sjálfri. Ég er ekki að búa þetta til.

Herra forseti. Það er alveg sama, eins og ég sagði margsinnis í morgun, hvernig við veltum þessum peningi. Hér er um hreina og klára skattahækkun að ræða og hæstv. ráðherra viðurkenndi það í raun og sanni. Hann var kominn út í horn og gat ekkert annað en viðurkennt þessar staðreyndir. Hann reynir á hinn bóginn að flytja hér undarlega ræðu í þá veru að kannski sé það samt sem áður þannig að sveitarfélögin þurfi ekki á þessu öllu að halda, þau séu kannski þrátt fyrir allt og vonandi og kannski og e.t.v. þannig í sveit sett að þau geti losnað við að leggja þessar auknu álögur á skattgreiðendur. En skýrslan segir bara allt annað og tillöguflutningur ráðherra segir bara allt annað. Þar er verið að auka heimildir vegna ástandsins. Eða er þetta bara allt upp á grín?