Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:53:27 (1559)

2000-11-09 18:53:27# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég man glögglega þá ágætu ræðu sem Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri í Fjarðarbyggð sendi á ráðstefnuna. Hún var bæði málefnaleg og lýsti vel ýtrustu kröfum sveitarstjórnarmanna og þó undirbyggðum af skynsemi. Hann sagði að sveitarfélögin þyrftu að fá 6--7 milljarða. Síðan hélt hann reyndar til haga líka, eins og t.d. Eggert Jónsson borgarhagfræðingur og fleiri gerðu, einhverjum fortíðarvanda sem menn hafa verið að deila um og kasta á milli sín. Meginmálið er að koma sveitarfélögunum á grunn sem þau geta rekið sig.

En við skulum sjá hvað sveitarfélögin fengu út úr þessu. Í útsvarinu fengu þau tæpa 4 milljarða í heimild og í endurgreiðslu í fasteignaskatti 1.100 milljónir, leiðréttingu á fæðingarorlofi eða léttingu á fæðingarorlofinu, 400 milljónir og ónotuð heimild í útsvari var 400 milljónir. Þetta gerir því 5,9 milljarða varanlega. (Gripið fram í.) Og til viðbótar þessu eru tvisvar sinnum 700 milljónir, þ.e. 1.400 milljónir, sem fámennari sveitarfélögin fá í leiðréttingu á fasteignaskattinum og í fólksfækkunarframlög og þjónustuframlög.