Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 18:55:12 (1560)

2000-11-09 18:55:12# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[18:55]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hér var býsna magnaður útreikningur sem ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að fara yfir vegna þess að við þurfum að grandskoða hann og förum kannski yfir hann síðar í kvöld. En eitthvað heyrðist mér að tölur væru mismunandi notaðar hvort þær fóru inn eða út.

Ég vil halda áfram, herra forseti, að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra vegna þess að ég heyrði að hann hafði munað eftir nokkrum tölum úr ræðu bæjarstjórans í Fjarðarbyggð. Þess vegna vil ég koma með enn eina tilvitnunina. Guðmundur Bjarnason segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt spám Þjóðhagsstofnunar þá er gert ráð fyrir að sveitarfélögin verði rekin með tapi um rúma 3 milljarða á næsta ári.

Tekjur þær sem sveitarfélögin fá við framangreindar breytingar nægja til að mæta þeim halla en fortíðarvandi síðustu tíu ára stendur eftir. Hann er um 35 milljarðar og því hefðu 6--7 milljarðar verið það sem sveitarfélögin hefðu þurft.``

Hér kemur talan sem hæstv. ráðherra var að vitna til og er nú komin í eðlilegt samhengi.

Herra forseti. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hélt líka ræðu á þessari ráðstefnu og hans sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Með vísan til þeirra staðreynda sem fyrir liggja geta fulltrúar ríkisvaldsins ekki með neinum rökum átalið sveitarfélögin fyrir að nýta sér þær rýmkuðu álagningarheimildir sem þau fá þegar tillögur tekjustofnanefndar koma til framkvæmda.``

Herra forseti. Hér er einnig afar skýrt mælt og ég ítreka að ég tel að viðbrögð sveitarstjórnarmanna á ráðstefnunni hafi fyrst og fremst verið þau að þeir voru að taka undir með þeim sem áður höfðu mælt skýrt um málið og þess vegna voru skilaboðin mjög skýr til hæstv. ráðherra.