Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 19:15:42 (1572)

2000-11-09 19:15:42# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[19:15]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram vil ég vekja eftirtekt á því að sú nefnd sem skilaði þessu frv. af sér er sett á laggirnar í júní 1999. Þetta mál kemur núna til þingsins og er ætlast til að það sé afgreitt á 10, 15 dögum og er það náttúrlega út af fyrir sig ákveðin vanvirðing við þingið að þetta skuli vera gert með þessum hætti. Hæstv. félmrh. viðurkenndi hins vegar áðan að það væri að einhverju leyti á ábyrgð hans að málið væri svona seint fram komið og ber að virða það. Ég vil taka undir að ég held að hv. þm. og þingmenn Samfylkingarinnar verði m.a. að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin og reyna að aðstoða ríkisstjórnina í þeim hremmingum sem hún er komin í.

En ég vil líka halda því til haga eins og við höfum rætt þetta mál í dag að þá er ekki þar með sagt að við séum fylgjandi málinu, það er náttúrlega af og frá. Ég vil líka velta því upp við virðulegan forseta hvort ekki sé hægt að verða við þeirri ósk hér, hugsanlega á mánudag eða eftir helgina, að ræða öll þessi mál saman. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessir hlutir séu ræddir í samhengi en ekki að við þurfum alltaf að vera að leita að íhaldinu í umræðunni, virðulegi forseti.