Efnahagsstefnan

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:03:34 (1580)

2000-11-13 15:03:34# 126. lþ. 23.1 fundur 105#B efnahagsstefnan# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég spyr um skoðun hæstv. forsrh. á ummælum fyrrv. framkvæmdastjóra peningamálasviðs Seðlabankans þess efnis að sennilega hafi efnahagsstefnan sem fylgt hefur verið á Íslandi á undanförnum árum að nokkru leyti magnað þann vanda sem þjóðarbúið glímir við í dag og að afgangurinn á ríkissjóði sé ofmetinn. Sömuleiðis spyr ég hæstv. forsrh. um afstöðu hans til þeirra ummæla fyrrv. framkvæmdastjóra peningamálasviðs Seðlabankans, Yngva Arnar Kristinssonar, að ýmis einkenni fjármálakreppunnar á Norðurlöndunum 1990 séu hliðstæð og sjá má í efnahagsumhverfi íslensku þjóðarinnar í dag. En orðrétt sagði Yngvi, með leyfi forseta:

,,Þá gengu Norðurlöndin í gegnum svipað skeið og við. Það er fyrstu uppsveifluna eftir endurbætur og aukið frjálsræði á fjármálamarkaði. Þeir lentu í verulegum skakkaföllum og verulegri fjármálakreppu sem stóð í tvö til þrjú ár sem leiddi til alvarlegs efnahagssamdráttar.``

Yngvi Örn Kristinsson, fyrrv. framkvæmdastjóri peningamálasviðs Seðlabankans, gagnrýndi líka það sem hann kallaði afleiðingar af óæskilegri stefnublöndu milli ríkisfjármála og peningamála og telur afleiðingarnar vera háa vexti og hátt gengi. Þetta eru alvarleg ummæli sem hér hafa fallið hjá fyrrv. yfirmanni í Seðlabankanum. Þess vegna er nauðsynlegt að fá fram skoðun hæstv. forsrh. á þessum ummælum.