Efnahagsstefnan

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:05:09 (1581)

2000-11-13 15:05:09# 126. lþ. 23.1 fundur 105#B efnahagsstefnan# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef ekki lesið þau tilvitnuðu ummæli sem hv. þm. nefndi en eftir lýsingu þingmannsins þá er ég ekki sammála þessari útlistun eins og hún kemur fram hjá nafngreindum manni. Ég held að það sé afskaplega mikill munur á þróuninni hér á landi annars vegar og á Norðurlöndum hins vegar frá fyrri tíð. Ég sé raunverulega ekki að þar sé neinu saman að jafna.

Hins vegar verð ég var við að mjög margir, ekki síst þeir sem starfa hjá verðbréfafyrirtækjum og slíkum stofnunum, hafa undanfarið dregið upp dekkri mynd en áður af stöðu efnahagsmála. Ég býst við að ástæðan sé sú að þeir horfa á lækkandi verð hlutabréfa sem kemur þeim á óvart. Ég hafði hins vegar margoft í ræðu varað menn við að gefa fólki til kynna að hlutabréf mundu hækka samfellt og færu ætíð hækkandi, mundu aldrei lækka og það væri samfelldur vindur í seglin hvað það varðaði. Til að mynda er ekki vafi á því að hlutabréf í ýmsum útflutningsgreinum munu fara lækkandi þegar ársreikningar birtast, sérstaklega vegna þess að þegar gengið hefur lækkað er líklegt að þá færist hjá fyrirtækjunum verulegt gengistap í einu lagi. Hins vegar er ekki vafi á því að þessar efnahagsaðstæður verða fyrirtækjunum haldbetri þegar fram í sækir. Staða þeirra styrkist í raun þegar til lengri tíma er horft. En ég hef ekki lesið þessi ummæli þessa tiltekna fyrrv. starfsmanns Seðlabankans.