Innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:11:16 (1586)

2000-11-13 15:11:16# 126. lþ. 23.1 fundur 106#B innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Þann 31. október sl. birti hæstv. landbrh. úrskurð sinn um beiðni um innflutning á fósturvísum úr norskum kúm. Hæstv. ráðherra heimilaði innflutning með ákveðnum skilmálum sem íslenskir kúabændur verða að uppfylla vilji þeir nýta sér fósturvísana. Um þann úrskurð er mikill ágreiningur og fagleg rök hafa verið færð gegn því að heimila innflutning á fósturvísum úr norskum kúm, m.a. vegna hugsanlegrar smithættu og vegna verndarsjónarmiða, þ.e. um verndun íslenska kúastofnsins, samanber skuldbindingar okkar á Ríó-sáttmálanum.

Herra forseti. Þannig vildi til að sama dag og hæstv. ráðherra gerði ljósan úrskurð sinn, eftir að hann hafði legið lengi undir feldi eins og tekið var til orða varðandi þessa beiðni, komu upplýsingar um að í Noregi hefði greinst sjúklingur með Creutzfeldt-Jakobs sjúkdóminn. Þar í landi er það rannsakað af fullum krafti hvernig þessi Norðmaður smitaðist af sjúkdómnum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi skoðað þá leið að fresta þessari heimild þar til rannsóknir í Noregi leiði í ljós hvernig Norðmaðurinn smitaðist eða hvort einhver hætta sé á ferðum sem ekki var ljós þegar heimildin var gefin.