Aukaframlög til Þjóðmenningarhúss

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:36:39 (1606)

2000-11-13 15:36:39# 126. lþ. 23.1 fundur 109#B aukaframlög til Þjóðmenningarhúss# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Mér er fullljóst eins og hæstv. fjmrh. bendir á að fjárlögin eru til umfjöllunar á hinu háa Alþingi en ég er hingað komin til að vekja athygli á framúrkeyrslunni við Þjóðmenningarhúsið og það fer heldur ekkert leynt að hér hefur verið um nokkuð umdeilda framkvæmd að ræða. Svo öllu sé haldið til haga þá er upphæðin 112 millj., herra forseti, og má nefna það hér til sögunnar að Þjóðskjalasafnið fær 87 millj. kr. og Stofnun Árna Magnússonar fær 74 millj. kr. samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrv. Mér þætti gott að vita hvort hæstv. fjmrh. þyki framúrakstur með þessum hætti eðlilegur.