Fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:56:08 (1612)

2000-11-13 15:56:08# 126. lþ. 23.94 fundur 104#B fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það á að selja Orkubú Vestfjarða upp í skuldir og það er örugglega þrýstingur frá því opinbera að menn gangi að þeim kaupum. Ástæðan fyrir þessu er að hluta til, og það stórum hluta, gjaldþrota stefna hvað varðar félagslega húsnæðiskerfið. Og því miður er það þannig hjá hæstv. félmrh. að það bólar ekki á neinum endurbótum á því kerfi. Það er ónothæft eins og það er í dag. Það eru engin sveitarfélög að nýta sér þetta kerfi í dag. En það er kannski svolítið önnur saga. Vonandi koma einhverjar tillögur um þá hluti í framhaldinu.

En hér eru menn að ræða um að taka eignir af sveitarfélögum á Vestfjörðum. Það er líka verið að tala um að einkavæða og koma af stað samkeppni í orkugeiranum í þessu landi. Og hvað blasir þar við? Það blasir við að Reykjavík á 45% í Landsvirkjun og Akureyri á 5% í Landsvirkjun. Ef þessi orkufyrirtæki verða sett inn í þá samkeppni sem þarna er á ferðinni þá eru öll önnur sveitarfélög í landinu eignalaus nánast hvað þetta varðar. Það þarf að taka á þessum málum í samhengi og það er að mínu viti frumhlaup að hirða eignir af sveitarfélögunum áður en menn eru búnir að leggja á borðið þær hugmyndir sem eiga að verða að veruleika hvað varðar þennan rekstur á orkuöflunar- og dreifingarfyrirtækjum í orku í landinu.

Hér eru menn að rjúka til og leysa mál áður en tillögur liggja fyrir. Þær ættu þó að vera að verða tilbúnar miðað við yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna undanfarin ár og ég tel fulla ástæðu að spyrja grannt eftir því hvað hangi á þeirri spýtu og hvernig eigi að leysa þau mál því það er ekki hægt að rífa þessi mál úr samhengi eins og nú er gert.