Fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 16:00:35 (1614)

2000-11-13 16:00:35# 126. lþ. 23.94 fundur 104#B fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), Flm. PBj
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem orðið hafa um þetta mál sem skiptir Vestfirðinga gífurlega miklu máli, svo miklu máli að efnt verður til borgarafundar að viku liðinni á Ísafirði þar sem þetta verður tekið til umræðu. Þar mun koma fram vilji almennings og reyndar hefur komið fram í skoðanakönnun sem hér var getið um áðan að um eða yfir 90% Vestfirðinga eru algerlega andvíg þessari ráðstöfun. Ég gat um það áðan að þetta er neyðarráðstöfun sveitarfélaga sem þau gera af illri nauðsyn en ekki af frjálsum vilja.

Hæstv. félmrh. sagði að ekki stæði til að fara illa með sveitarfélögin. Ég býst svo sem ekki við að það sé ætlun hans, síður en svo. Hann sagði líka að sveitarfélög bæru fulla ábyrgð á skuldbindingum sínum. Það er alveg rétt. Sveitarfélögin bera fulla ábyrgð á þeim skuldbindingum sem þau hafa stofnað til en ég er ekki viss um að þau beri fulla ábyrgð á þeim ytri aðstæðum sem þau hafa búið við síðasta áratuginn, reyndar síðustu áratugina. Það eru þær aðstæður sem hafa skapað það vandamál sem nú er uppi, ekki það að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi brugðist skuldbindingum sínum.

Sveitarfélögin tóku þessar skuldbindingar á sig við allt aðrar aðstæður en nú eru. Þegar stofnað var til íbúðalánakerfisins voru allt aðrar aðstæður á Vestfjörðum. Þar var mikil fiskveiði, heimilt að sækja fiskinn og mikil vinna í kringum þetta. Það þurfti einfaldlega íbúðir fyrir fólkið sem sinnti þessum framleiðslustörfum og það var gert.

Síðan hafa aðstæður breyst þannig að fiskveiðar frá Vestfjörðum eru orðnar hverfandi litlar, þrátt fyrir að Vestfirðir og hvert einasta þorp sem þar er hafi byggst upp fyrst og fremst eða eingöngu vegna nálægðar við fiskimiðin, til að sækja sjó og vinna fisk. Þegar það er ekki fyrir hendi lengur nema í litlum mæli þá er eðlilegt að sveitarstjórnir krefji aðra ábyrgðar. Þær ættu a.m.k. að gera það en hafa kannski þvert á móti reynt að gangast við ábyrgðinni og leitað eftir lausnum sem til lengri tíma litið gætu orðið þeirra banabiti. Um þetta snýst umræðan og um það snýst þetta mál, um sölu Orkubús Vestfjarða. Það mun verða þegar til lengdar lætur banabiti vestfirskrar byggðar ef þessi mál og önnur svipuð ná fram að ganga.