Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 16:05:52 (1616)

2000-11-13 16:05:52# 126. lþ. 23.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[16:05]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Við höldum nú áfram umræðu um mál sem fjallað var um daglangt á fimmtudaginn, enda stórmál, tekjustofnar sveitarfélaga og fjárhagur þeirra. Sú umræða var mjög ítarleg og þingmenn stjórnarandstöðu áttu orðastað við hæstv. félmrh. og einn eða tvo flokksmenn hans, m.a. formann svokallaðrar tekjustofnanefndar. Það bar til tíðinda á þeim degi að hlutdeild Sjálfstfl. í þeirri umræðu var nákvæmlega engin. Framlag Sjálfstfl. til umræðu um fjármál sveitarfélaga var í því fólgið að formaður þingflokksins kom upp í stutt andsvar og hvarf síðan af fundi. Til að halda öllu til haga tók hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir einnig þátt í umræðunni.

Þrátt fyrir ítrekaða ósk um að fjmrh. yrði viðstaddur þessa umræðu, enda málið nátengt öðru dagskrármáli sem er til umræðu síðar í dag, þ.e. breytingum á tekjuskatti ríkisins, þá tókst ekki að kalla þingmenn Sjálfstfl. til þessarar umræðu.

Nú eru fimm eða sjö þingmenn Samfylkingarinnar á mælendaskrá undir þessum dagskrárlið. Við teljum mikilvægt að Sjálfstfl. komi að þessu máli og fjmrh., enda var hann hafður með í ráðum þegar frá þessum gjörningi var gengið og þessi niðurstaða ríkisstjórnarinnar gerð kunnug. Málið er sumpart á forræði hæstv. fjmrh. og til þess að freista þess að halda Sjálfstfl. við efnið og fá hann til þessarar umræðu mun ég ekki orðlengja þennan þátt málsins. Ég áskil mér hins vegar rétt til þess, herra forseti, undir 5. dagskrárliðnum, tekjuskattur og eignarskattur --- það frv. er ekki mikið að sniðum né með langri grg. en er nátengt öllum þeim tillögum og þeim umræðum sem fram fóru hér á fimmtudaginn um fjármál sveitarfélaga --- að fara allítarlega yfir sviðið þegar þau mál ber á góma. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur borið fram brtt. um skattaþátt málsins, hinn stórpólitíska þátt þess, sem hljóðar einfaldlega þannig að skattar ríkisins lækki til jafns við auknar heimildir sveitarfélaganna í útsvari.

Þess vegna hefur það, herra forseti, orðið að ráði að við þingmenn Samfylkingarinnar munum ekki orðlengja þennan þátt málsins undir þessum dagskrárlið en fjalla um hann á annan hátt þegar kemur að 15. dagskrármáli.