Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 16:09:14 (1617)

2000-11-13 16:09:14# 126. lþ. 23.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem ég vildi koma inn á til viðbótar því sem ég kom inn á í ræðu minni fyrir helgi, um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Í fyrsta lagi, herra forseti, vil ég spyrjast fyrir um, meðan við höfum hæstv. fjmrh. hér, hvað líði greiðslum í varasjóð vegna íbúðalána sem á að taka á sig áföll í sölu á íbúðum í hinu félagslega húsnæðiskerfi, eignaríbúðum sem ekki seljast fyrir það verð sem þyrfti til að lán og annar kostnaður standi á sléttu. Úti um land er víða svo statt að þessar íbúðir verður að selja með afföllum. Þá er gert ráð fyrir því að þessi varasjóður komi að og taki þátt í að greiða þann mismun.

Ef mig minnir rétt var veitt heimild á fjárlögum þessa árs, fyrir 100 millj. kr. að mig minnir, til þessa verkefnis. Það þótti mönnum samt ekki of mikið. Ég leyfi mér að spyrjast fyrir um hvort hæstv. fjmrh. geti gefið svör um hvort búið sé að inna þessar greiðslur af hendi til sveitarfélaganna. Þó að fjárlagafrv. fyrir næsta ár sé að vísu til umræðu gæti hann samt upplýst okkur um að hverju fjmrn. stefnir varðandi skuldbindingar við félagslega íbúðakerfið.

Hitt atriðið er, herra forseti, spurning til hæstv. félmrh. varðandi reglur um úthlutun á því framlagi sem ætlað er að fari nú til jöfnunarsjóðsins til að mæta lækkun á fasteignaskatti. Í frv. er lagt til að fasteignaskattar, þ.e. fasteignamat skuli miðast við markaðsverð eigna. Nú er stuðst við ýmiss konar matsaðferðir. Við höfum fasteignamat, endurmatsverð fasteigna eða endurstofnverð fasteigna. Fasteignir eru metnar á ýmsa vegu og ég held að það skipti miklu máli fyrir sveitarfélögin að vita hvaða reglur eiga að vera þarna til grundvallar. Einnig þarf að vera ljóst með hvaða hætti þessu fjármagni er síðan úthlutað. Kemur íbúafjöldi eða meðaltekjur inn í þessar reglur eða mun hreinlega, eins og eðlilegast er, þetta koma til sveitarfélaganna eftir því hvaða fasteignir eru fyrir hendi og matsverði þeirra í hlutfalli við matsverð á höfuðborgarsvæðinu?

Herra forseti. Ég tel afar mikilvægt að fyrir liggi stefna um hvernig þessu fjármagni verði úthlutað.