Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 16:13:51 (1618)

2000-11-13 16:13:51# 126. lþ. 23.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Fyrri ræðumenn úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa gert ágæta grein fyrir afstöðu okkar til þessa máls. Ég hef ekki miklu þar við að bæta. Ég kem fyrst og fremst upp til að lýsa mikilli óánægju minni með heildarniðurstöðuna í þessum málum. Ég verð að segja alveg eins og er, að mér finnst hlutur ríkisstjórnar í þessum efnum og samskipti hennar við sveitarfélagastigið í landinu á þá leið að mér dettur helst í hug að lýsa því með orðunum: Lengi getur vont versnað. Ég segi bara það, herra forseti. Lengi getur vont versnað.

Um alllangt árabil hafa sveitarfélögin legið undir stórfelldri ágjöf frá hæstv. ríkisstjórn og verið borin þar þungum sökum. Ég hygg að í fyrra frekar en hittiðfyrra hafi ekki færri en tveir hæstv. ráðherrar, meira að segja á ráðstefnu sveitarfélaga um fjármál, ráðist að sveitarfélögum með óbótaskömmum fyrir óráðsíu og skort á aðhaldi í fjármálastjórn. Hæstv. forsrh. hefur gosið um þetta sama efni af og til.

Engu að síður var öllum þó ljóst að við svo búið yrði ekki unað. Öll teikn, allar mælingar, allar úttektir sýna sömu þróun í fjárhagsafkomu sveitarfélaganna. Útgjöld sem hlutfall af skatttekjum sveitarfélaga fara jafnt og þétt hækkandi. Skuldir þeirra vaxa og þau eiga í æ minni mæli fyrir framkvæmdum þegar rekstrarkostnaður hefur verið greiddur. Mörg þeirra eru reynar þannig sett nú þegar að hverja einustu krónu sem gengur til framkvæmda verður að taka að láni. Þau eru reyndar ófá sem beinlínis eiga ekki fyrir rekstrarútgjöldum, hvað þá meira.

[16:15]

Ég leit svo á að með þeirri ákvörðun að setja endurskoðunarstarf í gang undir forustu ekki ómerkari trúnaðarmanna ríkisstjórnarinnar en m.a. hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln., væru menn a.m.k. að einhverju leyti að viðurkenna þessar aðstæður og ætluðu sér að horfast í augu við þær og gera eitthvað í málinu. Ég lít á niðurstöðu nefndarinnar, ef niðurstöðu skyldi kalla, sem algera frávísun á þessu vandamáli. Það sem er sagt við sveitarfélögin er: Ja, þið getið hækkað skattana. Þið megið hækka skattana. Ekki er á nokkurn hátt brugðist við þeim vanda sem er uppi í málinu, hvað þá að reynt sé að koma þessum samskiptum til einhverrar frambúðar í form. Hefði maður þó ætlað að einhver heiðarleg tilraun yrði gerð til þess ef á að bæta útgjaldafrekum málaflokki í viðbót yfir á sveitarfélögin þar sem er flutningur á málefnum fatlaðra þangað yfir.

Ég lét, herra forseti, þar af leiðandi segja mér tvisvar að út úr öllu þessu mikilvæga starfi, sem hafði mallað næstum í eitt og hálft ár, hefði ekki komið meira en sú stórsnilld að sveitarfélögin gætu hækkað útsvörin. Það er meiri niðurstaðan. Það er von að liðið sé dasað sem var í eitt og hálft ár að hugsa út þá niðurstöðu. Menn hljóta að þurfa að fara í langa hvíld, þessir afreksmenn sem afrekuðu á einu og hálfu ári að láta sér detta það í hug að sveitarfélögin gætu hækkað skattana. Það er eins og punkturinn yfir i-ið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga þar sem ríkisvaldið og ríkisstjórnin í krafti meiri hluta síns hefur ítrekað neytt aflsmunar, skammað sveitarfélögin sem eru bundin í báða skó, hverjum eru skammtaðar tekjur og verkefni af hálfu ríkisins eða löggjafans og fá svo þetta í andlitið, að úr því að þau vanti tekjur geti þau hækkað skattana.

Þessi samskipti, herra forseti, verðskulduðu að mínu mati að vera tekin til rækilegrar athugunar og það þyrfti að fara fram óháð úttekt á því, t.d. hvernig Ísland hefur staðið að verki hvað það varðar að virða samningsbundið sjálfstæði sveitarfélaganna. Nú er það þannig að Ísland fullgilti fyrir allmörgum árum Evrópusáttmála um málefni sveitarfélaga. Þar er kveðið mjög skýrt á um að sveitarstjórnarstigið í landinu sé sjálfstætt stjórnsýslustig og það beri að virða sjálfstæði þess og ekki eigi að níðast á því. Ég tel að ríkisvaldið á Íslandi hafi undanfarin ár og reyndar sjálfsagt býsna lengi, ef öll kurl væru komin til grafar, níðst á sveitarfélagastiginu og beitt ítrekað aflsmun.

Ég minnist deilna sem urðu fljótlega upp úr 1990 t.d. um útgjöld sem með beinum ákvörðunum í fjárlögum var hent í sveitarfélögin, stundum hundruðum millj. kr. Þetta voru alveg dæmalaus samskipti og kannski hefur dregið úr slíku en þó má segja að það hafi gengið aftur með þeim hætti að ríkið hafi velt yfir á sveitarfélögin útgjaldafrekum verkefnum.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þm. í hliðarherbergjum að hafa hægt um sig.)

Þeir eru nú svo skemmtilegir að mér finnst allt í lagi að leyfa þeim að halda áfram, miklir húmoristar þarna.

Herra forseti. Ríkið hefur á sínum forsendum, meira og minna því miður, velt verkefnum yfir á sveitarfélögin. Það hefur komið á daginn að tekjustofnarnir sem reiknað var með og færðir voru yfir hafa engan veginn dugað m.a. vegna þess að menn vanmátu stórkostlega þær væntingar sem voru fólgnar í úrbótum á viðkomandi sviði. Þar held ég að grunnskólinn sé nærtækasta dæmið og sveitarfélögin standa með kröfurnar á sér um úrbætur hvort sem heldur er í fjárfestingu eða launamálum starfsfólks o.s.frv. og ríkisvaldið hefur komist mjög vel frá því að velta þannig yfir til sveitarfélaganna viðfangsefnum sem allt teiknaði til að mundu þurfa aukið fjármagn á komandi árum. En reikningsgrundvöllurinn var sóttur til fortíðarinnar. Hann var afturhverf viðmiðun á því sem hafði verið lagt í viðkomandi málaflokk á einhverjum viðmiðunarárum aftur í tímann og horft fram hjá þeirri þróun og þeirri ferð sem var á þessum málum.

Nú er það svo að ýmiss konar umönnun og þjónusta og hluti af uppbyggingu velferðarkerfisins eru þau svið þjóðfélagsins sem hafa verið að taka aukið fjármagn til sín á umliðnum árum og áratugum. Þetta vitum við. Þessi þróun er í gangi og þar af leiðandi hlýtur það að enda illa ef hin reikningslegu samskipti eru byggð á svona formúlu og það hefur komið á daginn. Þess vegna verð ég líka að segja, herra forseti, að ég hef miklar efasemdir um það ef menn ætla að fara að færa jafnviðkvæman málaflokk og málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og nota sömu gömlu gölluðu aðferðirnar sem hafa þegar gefist illa og engin ástæða er til að ætla annað en muni gera það áfram, ef þeim verður framfylgt að óbreyttu.

Herra forseti. Gaman væri að fá fram óháða úttekt á samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Hún mundi m.a. leiða í ljós að lagaramminn um þessi samskipti á Íslandi er í raun og veru alveg ónothæfur. Það er t.d. enginn óháður sjálfstæður úrskurðaraðili sem sveitarfélögin geta leitað til ef þau telja á sig hallað. Hann er ekki til samkvæmt löggjöfinni eins og hún er hér. Það er bara meiri hlutinn sem ræður. Í krafti atkvæða sinna á Alþingi, löggjafarvalds og framkvæmdarvalds setur ríkisstjórnin alla skilmála í þessum efnum og sjálfstæði sveitarfélaganna er á köflum ekkert nema orðin tóm. Það er þó þannig víða í nágrannalöndunum að til staðar er einhver óháður úrskurðaraðili eða gerðardómur sem sveitarfélögin geta skotið málum sínum til ef þau telja á sig hallað þannig að þau eru ekki algerlega varnarlaus í samskiptum sínum eins og þau eru hér í raun og veru.

Það er eitt samskiptamál enn, herra forseti, sem ég tel að hafi farið í gegnum þingið án nægjanlegrar skoðunar og síðan komið á daginn eins og stundum áður að sveitarfélögin hafi borið skarðan hlut frá borði og ríkið hagnast alveg stórkostlega á því til frambúðar litið að velta viðfangsefninu yfir til sveitarfélaganna. Þetta voru þær breytingar sem gerðar voru í húsnæðismálum undir forustu núv. hæstv. félmrh. Þegar betur er að gáð var það fyrst fremst ríkið sem græddi á því að gera þær breytingar í húsnæðismálum sem raun ber vitni með því að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið sem er vel að merkja, herra forseti, mikill plagsiður að rægja og kenna um allt sem miður hafi farið, að mínu mati algerlega að ósekju. Þar er ekki við kerfið sem slíkt að sakast og ekki það fólk a.m.k. sem fékk inni í þessu húsnæði og það er gaman að heyra hv. alþm. tala eins og það skipti engu máli að mörg þúsund fjölskyldur í landinu komust inn í gott íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum vegna þessa kerfis. (Gripið fram í.) Það er algengt í umræðum að þannig sé talað um þessi mál sem þetta hafi aldrei verið neitt annað en einn allsherjarhausverkur. Hver skyldi hafa grætt á því að breytingarnar voru gerðar sem raun ber vitni í húsnæðismálum? Fyrst og fremst ríkið. Fyrir því voru birtir mjög trúverðugir útreikningar norður í landi núna í haust þar sem fagmanneskja á þessu sviði var búin að fara ofan í saumana á því hversu mikið ríkið græðir á því að loka félagslega lánakerfinu og losna þannig undan vaxtaniðurgreiðslunum og bakábyrgð sinni á útgjöldum Byggingarsjóðs verkamanna inn í framtíðina. Þar voru milljarðar á ferðinni sem ríkið hagnast á breytingunni og sveitarfélögin eins og stundum áður sitja eftir með sárt ennið.

Svo kemur eitt enn: Tóm svik þegar kemur að því litla sem ríkið átti að leggja í púkkið, þ.e. framlög í varasjóð o.s.frv. Svona, herra forseti, hafa þessi samskipti aftur og aftur verið og stjórnvöld af einhverjum undarlegum ástæðum oftar en ekki komist upp með að halda leiknum áfram. Af hverju skyldi það vera? Jú, það er af því að sveitarfélögin eru auðvitað á hnjánum í samskiptum við ríkið vegna þess hvernig búið er um hnútana og þau hafa ekki efni á því að fara í ágreining eða standa fast á sínu vegna þess að þau þurfa að lúta valdinu upp á framtíðarsamskiptin. Þannig er þetta. Þetta er algerlega óþolandi ástand, herra forseti, og óþolandi samskipti. Þarna verður að ráða bót á með einhverjum þeim stjórnkerfisbreytingum og lagabreytingum, fyrir utan að skipta út þeim mannskap sem hefur sætt færis í þessum efnum sem tryggja með lögum raunverulegt sjálfstæði sveitarfélaganna og eitthvert fjármálalegt og pólitískt vald því að það er ólýðræðislegt og það er óeðlilegt í öllu tilliti að það sem á að heita sjálfstætt og sérstaklega kjörið stjórnsýslustig í einu landi sé svona undir aðra sett eins og raun ber vitni. Það gengur ekki. Gaman væri að heyra hvort hæstv. félmrh. hefur einhverjar áhyggjur af þessu eða hvort hann er hæst\-ánægður með hlutina eins og þeir eru. Hefur hæstv. félmrh. t.d. velt því fyrir sér að koma upp gerðardómi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem geti sjálfstætt og óháð úrskurðað um ágreiningsatriði sem koma upp? Eða finnst honum að þetta eigi bara að vera þannig að ríkisstjórnin ráði þessu á hverjum tíma algerlega eins og henni sýnist?

Í raun er það þannig, herra forseti, að hin almenna og stóra þróun í þessu efni er ósköp ljós. Hún er sú að með vaxandi verkefnum sem færð hafa verið yfir til sveitarfélaga án þess að tekjustofnar fylgdu hefur hallinn sem var áður einkenni á rekstri ríkissjóðs um langt árabil færst yfir til sveitarfélaganna. Þetta er alveg kristaltært. Þegar tölfræðin er skoðuð, sem liggur á bak við, má alveg fylgja þeirri þróun hvernig afkoma sveitarfélaganna versnar, afkoma ríkissjóðs batnar og hallinn færist smátt og smátt úr því að vera hjá ríkissjóði, a.m.k. að hluta til, yfir í að vera allur hjá sveitarfélögunum. Svo sperra menn kassann og hæla sér af því hvað þeir reki ríkissjóð vel, séu miklir menn og skamma sveitarfélögin fyrir óráðsíu. Það er öll sanngirnin í þessum samskiptum.

Svona getur þetta ekki gengið, herra forseti. Það er þeim mun alvarlegra sem búið er að færa mikilvægari og viðameiri samfélagsleg verkefni yfir til sveitarfélaganna sem er að mörgu leyti gott og þar eru þau ágætlega komin mörg hver og vel flest að því tilskildu að sveitarstjórnarstigið í landinu hafi fjármuni og stöðu til að leysa þau sómasamlega af hendi. En það verður ekki til góðs fyrir velferðarsamfélagið á Íslandi að færa sveitarfélögunum verkefni á sviði velferðarþjónustu ef þeim er ekki gert kleift að sinna þeim sómasamlega, ef þau þurfa að safna skuldum og skera sig inn að beini til þess að ráða við þau. Þá mun fjárhagsleg afkoma sveitarfélaganna valda mismunandi þjónustustigi og innleiða mismunun bakdyramegin í gegnum slíka tilfærslu. Það er það sem ég óttast að sé þegar farið að örla á hér og væri þá sambærilegt við reynslu margra annarra sem hafa misstigið sig í þessum efnum og reyndar margir hverjir lært af reynslunni.

Ég vil líka segja, herra forseti, að ég hef sannfærst æ meira um að sú að því er virðist tilviljanakennda formúla sem hér er fylgt um að verkefnið þurfi að vera annaðhvort alfarið hjá ríkinu eða sveitarfélögunum er vitlaus. Það er skrýtið að hér virðist þriðja leiðin, sem er alsiða að fara í nágrannalöndum, nánast horfin út úr myndinni, þ.e. að vissir málaflokkar, viss verkefni og vissar aðstæður séu þannig að þau séu eðli málsins samkvæmt samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaganna. Það er ekki og á ekki að vera neitt að því enda er það mjög víða þannig að málaflokkar sem við erum að burðast með í okkar litla landi að hafa hrein verkefni annaðhvort hjá ríki eða sveitarfélögunum eru samstarfsverkefni þessara aðila og jafnvel fleiri aðila erlendis. Það eru t.d. mörg þekkt dæmi um að jafnvel þrír aðilar, ríkisvald, fylki eða héruð og sveitarfélög standi sameiginlega að ákveðnum málaflokkum samkvæmt ákveðnum reglum um kostnaðarskiptingu o.s.frv.

[16:30]

En hér hefur verið einhver lenska að þetta skuli vera annaðhvort eða og menn útiloka þann möguleika, sem ég tel að komi oft til greina og gæti í mörgum tilvikum hentað best, að horfast í augu við að hlutirnir geta verið þannig vaxnir í okkar litla landi að það sé heppilegt að þessir aðilar standi með tilteknum hætti sameiginlega að málaflokknum eða beri sameiginlega á honum ábyrgð.

Það þarf engu að breyta um að framkvæmdin sem slík getur sem fyrirkomulagsatriði verið á höndum annars aðilans, t.d. sveitarfélaganna, þó að ríkið sé ekki þar með laust allra mála og geti t.d. hegðað sér þegar það hentar, eins og hæstv. menntmrh. iðulega gerir núorðið í umræðum um málefni grunnskólans, að menntmrn. og menntmrh. komi það ekki við af því að þetta sé komið til sveitarfélaganna og þar með séu menn lausir allra mála. Það er ein útkoman úr þessu, herra forseti, sem komið getur upp ef menn gangast upp í þessu ofstæki.

Um þá niðurstöðu hvað tekjurnar varðar, herra forseti, er það að mínu mati í fyrsta lagi algjörlega ljóst að hér er um ófullnægjandi úrlausn fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélaganna að ræða, algjörlega. Það er algjörlega ófullnægjandi og óásættanleg úrlausn að vísa þeim einfaldlega á að hækka útsvarið.

Í öðru lagi, herra forseti, er ljóst að sú leið mun nýtast sveitarfélögunum mjög mismunandi og kemur misjafnt niður. Það er mjög ósanngjarnt gagnvart þeim sveitarfélögum sem liggja langt undir landsmeðaltali í meðaltekjum að vísa þeim bara á þessa einu úrlausn.

Í þriðja lagi held ég að það hefði alla kosti út frá jafnvægi og stöðugleika í samskiptum þessara aðila að tekjustofnar ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar væru einsleitari þannig að síður væri hætta á misgengi og sveiflum eins og nú hefur komið upp að getur falist í núverandi ástandi. Þar hefði hlutfallsleg --- miðað við íbúatölu --- hlutdeild sveitarfélaga í breiðari tekjustofnum haft yfirburði vegna þess að þá jafnaðist aðstaða þeirra, það dró úr mismunandi aðstöðu eftir því hversu háar meðaltekjur voru í viðkomandi sveitarfélagi og fleiri þættir geta þarna valdið misgengi.

Í fjórða lagi, herra forseti, held ég að sú leið muni enda með ósköpum að vísa alltaf öllum óleystum vandamálum í tengslum við svona tekjubreytingar eða verkefnatilflutning í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem tútnar út um þessar mundir og siglir hraðbyri í að verða einhvers konar lítill ríkissjóður. Munurinn er bara sá að stjórnunarlegt fyrirkomulag hans er allt öðruvísi og þar er jafnvel stórfelldum fjármunum úthlutað á grundvelli reglugerða þar sem reglur um útgreiðslur geta ráðið tugum og jafnvel hundruðum milljóna, hvert þær fara, þannig að sum sveitarfélög sitja uppi með stórkostlega skarðan hlut ósköp einfaldlega vegna þess hvernig þau koma út úr reglum sem settar eru af hæstv. ráðherra og/eða starfsmönnum hans.

Þessa hluti alla, herra forseti, hefði þurft að taka rækilega til skoðunar. Það verður ekki séð að nefnd um tekjustofna sveitarfélaga hafi unnið neitt af þessu. Niðurstaða hennar er harla snautleg svo ekki sé fastar að orði kveðið og vekur mikla undrun yfir hverju menn voru að hanga í næstum eitt og hálft ár.