Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 16:44:53 (1624)

2000-11-13 16:44:53# 126. lþ. 23.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það fer hæstv. félmrh. ákaflega illa að vera með þennan gorgeir undir þessum kringumstæðum og raunar ganga lengra í yfirlýsingagleði um meinta ánægju sveitarfélaganna í landinu en sjálft íhaldið. Var hann nú enginn sérstakur aðdáandi þess hér á árum áður. En ég orðaði það þannig á fimmtudaginn að svo virðist sem hann gleðjist yfir því að ganga í þess björg.

[16:45]

Það veit hver maður sem fylgist með og leggur við eyru að það ríkir almenn óánægja og á ráðstefnu sveitarfélaga á Hótel Sögu fyrir nokkrum dögum voru það sveitarstjóri Reykhólahrepps, formaður bæjarráðs Akureyrar, Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri í Fjarðarbyggð sem var einn frummælenda, Vilhjálmur Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, svo ég gleymi ekki fulltrúum sveitarfélaga í tekjustofnanefndinni sjálfri sem hörmuðu þessa niðurstöðu. Það þarf ekkert vitnanna við og er satt að segja fyrir neðan beltisstað að heyra ráðherra sveitarstjórnarmála halda því fram að sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið séu duglegir við að eyða peningum, en kunni ekki að afla þeirra. Það er ekki mín reynsla af sveitarstjórnarmönnum og mér finnst það kuldalegar kveðjur frá ráðherra sveitarstjórnarmála ef hann hefur þá trú og skoðun á sveitarstjórnarmönnum og þekkir hann þá suma býsna vel að ég hélt.

Herra forseti. Það er svo, það vita allir og það var farið rækilega yfir það á fimmtudaginn, og ástæða er til þess að hætta nú að ræða við Albaníu en snúa sér beint til Kína, að íhaldið réði ferðinni í þessum efnum. Það er nöturlegt hlutskipti sveitarstjórnaráðherrans að hann skuli reyna að verja þennan gjörning, þessa hreinu og kláru skattahækkun á landsbyggðarfólk og þéttbýlisbúa. Það er kjarni þessa máls.