Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 16:50:01 (1628)

2000-11-13 16:50:01# 126. lþ. 23.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[16:50]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Á opnum fundi sem þingflokkur Samfylkingarinnar hélt í síðustu viku með borgarstjóra upplýsti borgarstjóri að það ríkti neyðarástand í húsnæðismálum hjá láglaunafólki á höfuðborgarsvæðinu. Borgarstjóri upplýsti að biðlistinn hefði tvöfaldast á stuttum tíma og 300 fjölskyldur byggju við hreint neyðarástand í húsnæðismálum og ættu hvergi höfði sínu að halla. Áætlun sem borgin hafði gert um að leysa biðlistann á örfáum árum fór öll úr skorðum þegar hæstv. ráðherra lokaði félagslega húsnæðiskerfinu og lítið virðist á döfinni til þess að leysa vanda þeirra sem eru á leigumarkaðnum.

Þess vegna spyr ég í lok þessarar umræðu: Hver eru skilaboð hæstv. ráðherra til þessa fólks sem á hvergi höfði sínu að halla?

Ég sé ekki annað en að skilaboðin séu tvenns konar.

Í fyrsta lagi boðar ráðherra hækkun á sköttum á þetta fólk, verulega hækkun á sköttum sem beinist sérstaklega að fólki á höfuðborgarsvæðinu þar sem beinlínis er lagt til að útsvar í Reykjavík hækki.

Í annan stað boðar hæstv. ráðherra í fjárlagafrv. að hækka vexti á leiguíbúðum sveitarfélaga upp í markaðsvexti. Og hvað þýðir það, herra forseti? Annaðhvort mun leigan hækka verulega á fólki sem er í leiguíbúðum eða sveitarfélögin munu hætta að byggja leiguíbúðir eða útgjöld sveitarfélaga munu þenjast út vegna aukningar á húsaleigubótum.

Ég spyr í lok þessarar umræðu: Hver eru skilaboð hæstv. ráðherra til 300 fjölskyldna sem nú búa við neyðarástand í húsnæðismálum og sjá hvergi lausn á sínum málum?