Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 17:08:53 (1634)

2000-11-13 17:08:53# 126. lþ. 23.3 fundur 200. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (vatnsgjald) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga sem hér er lagt fram leiðir athyglina að stöðu vatnsveitna almennt en ekki síður að stöðu vatnsveitna í sveitum sem ég vildi gera að umtalsefni.

Á sl. þingi lagði hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson fram fyrirspurn um vatnsveitur á bændabýlum. Þá svaraði hæstv. félmrh. því til að unnið væri að lagalegum grundvelli til að vatnsveitur á bændabýlum gætu einnig fengið styrki eins og vatnsveitur í eigu sveitarfélaga. En við breytingu eða niðurfellingu jarðræktarlaganna urðu vatnsveitur á sveitabýlum lagalega munaðarlausar.

Ég vil með leyfi, herra forseti, vitna til ræðu hæstv. félmrh. frá áðurnefndum umræðum:

,,Varðandi vatnsveitur til heimilis- og búsþarfa í sveitum þá voru ákvæði í jarðræktarlögunum um skyldur ríkisins til greiðslu framlaga vegna þessara vatnsveitna. Búnaðarfélag Íslands hafði með úthlutun þessara framlaga að gera, svo og eftirlit með framkvæmdum. Fyrir nokkrum árum fór að gæta mikillar tregðu með fjármagn til þessara framlaga eins og annarra framlaga sem tengdust einhvern veginn landbúnaði öðruvísi en í gegnum skógrækt eða landgræðslu og þessi framlög voru alveg felld niður, sem er náttúrlega ómögulegt fyrirkomulag.``

Ég vek athygli á því, herra forseti, að ég vitna hér til ræðu hæstv. félmrh.

,,Ég beitti mér fyrir breytingum á reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem tók gildi í janúar 1999 þannig að heimilt væri að greiða úr honum framlög til vatnsveitna í sveitum. En eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Árna Steinars Jóhannssonar, eru verulegir annmarkar á því að gera þetta í gegnum sveitarfélögin, koma þessum framlögum til réttra aðila með milligöngu sveitarfélaganna. Ég hef því ákveðið að leggja til við tekjustofnanefndina,`` --- þ.e. nefndina sem skilaði áliti í haust og þetta frv. er byggt á --- ,,og er reyndar búinn að því, að við endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði heimilt að greiða þessi framlög með milligöngu Bændasamtakanna. Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna hefur ekki heimild til að greiða öðrum en sveitarfélögunum. En ég óska eftir því að opnað verði fyrir heimild til þess að greiða þessa upphæð í einu lagi til Bændasamtakanna, sem síðan tækju að sér að koma framlaginu til réttra aðila samkvæmt mælingu þar að lútandi þegar úttekt verður á framkvæmdum. Það er alveg óviðunandi að ekki gildi jafnræði um aðstoð í þessu efni við vatnsveiturnar.``

Herra forseti. Ég vitnaði hér til ræðu hæstv. félmrh. frá 125. þingi varðandi stöðu vatnsveitna í sveitum.

Ég þykist vita fyrir víst að hæstv. félmrh. vilji að þarna gildi jafnræði og að þessar vatnsveitur fái stuðning eins og aðrar vatnsveituframkvæmdir. Það er ekki hægt að ætlast til þess að sveitarfélögin axli þá ábyrgð að eiga og reka vatnsveitur á hverjum einstaka sveitabæ. Hins vegar er jafnófært, eins og hæstv. félmrh. kom að í þessu svari sínu við fyrirspurn frá því sl. vetur, að ekki skuli vera á þessu önnur lausn.

Ég verð því að harma, herra forseti, að í þessum tillögum til breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga er hvergi, að því er ég hef séð, vikið að þessu máli, þrátt fyrir gefnar yfirlýsingar.

Ég leyfi mér hér að ítreka við hæstv. félmrh. að hann gefi okkur svar við því hvað sé að gerast varðandi fjármögnun og stuðning við vatnsveitur í sveitum. Er þetta ekki þriðja þingið sem við höfum fengið að heyra yfirlýsingar frá honum varðandi þetta mál?