Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 17:23:55 (1640)

2000-11-13 17:23:55# 126. lþ. 23.3 fundur 200. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (vatnsgjald) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[17:23]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að draga umræðuna á langinn en hér er um að ræða fylgifrv. með meginfrv. um tekjustofna sveitarfélaga og gerð glögg grein fyrir því í athugasemdum við frv. Hér er um að ræða þjónustugjald, vatnsgjaldið, og þjónustan verður ekkert ódýrari við það að fasteignamatsviðmið breytist og því eðlilegt og sjálfsagt að auknar heimildir til þeirra sveitarfélaga sem munu í framtíðinni búa við lægra fasteignamat og þar af leiðandi lægri tekjur verði hækkaðar til að mæta því. Ég get mjög vel fellt mig við þetta og þetta er eðlilegur hluti í því góða máli sem ég hef nefnt áður um lækkun fasteignaskatts sem menn hafa þó verið að gera heiðarlegar tilraunir til þess að eyðileggja með því að hækka aðra skatta á móti.

En ekki meira um það, hér hafa menn verið að benda á mál þessu óskylt, þ.e. um vatnsveitur almennt og vatnsveitur einstaklinga og bænda sem er viðfangsefni sem er sjálfsagt að ræða á réttum stað og réttum tíma. Mig rekur ekki minni til þess að boðskapur ráðherra, sem hann lýsti áðan, hafi komið sérstaklega inn í þessa tekjustofnanefnd. Það hefur þá verið á einhverjum þeim örfáu fundum sem viðkomandi var ekki mættur á en ekki var lögð þung áhersla á það. Enda vil ég rifja upp að hér var um að ræða tekjustofnanefnd sveitarfélaga, ekki endurskoðunarnefnd jöfnunarsjóðs né heldur endurbótanefnd í vatnsmálum vítt og breitt. Við orð hæstv. ráðherra velti ég því fyrir mér hvort það sé rétta leiðin að taka á því máli í nefnd milli umræðna eða hvort ekki ætti að gera út sérstaka sjálfstæða ferð í þeim efnum ef menn vilja taka á því viðfangsefni. Ég velti því upp þannig að öllu sé haldið til haga á réttum stað og réttum tíma.

Í þessu samhengi skýt ég því upp hvort það sé ekki of einföld og skjótfengin lausn sem gæti hugsanlega leitt af sér vandamál og flækjur ef breyta ætti lögum eða reglugerðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í þá veru að einstaklingar gætu í stórum stíl átt þar aðkomu. Ég spyr sjálfan mig að því hvort menn þurfi ekki að hugsa það mál a.m.k. mjög alvarlega. Þá vil ég á engan hátt draga úr mikilvægi þess að prívatvatnsveitur bænda fái stuðning og styrk en það þarf að vera með réttum hætti.