Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 17:26:39 (1641)

2000-11-13 17:26:39# 126. lþ. 23.3 fundur 200. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (vatnsgjald) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[17:26]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Forseti. Hugmyndin gekk út á það að bændasamtökin sæju um verkefnið, þ.e. ekki væri verið að vesenast við einstaka einstaklinga heldur að bændasamtökin gerðu heildaráætlun um hvað þyrfti á hverju ári og sæju svo um útgreiðslu á þessum fjármunum.

En hér er um þjónustugjald að ræða og ég held ég muni það rétt að ég hafi skrifað tekjustofnanefndinni bréf um þetta atriði á sínum tíma. (GÁS: Hvar er það bréf?) Það skiptir ekki höfuðmáli en það sem skiptir máli er það að um er að ræða þjónustugjald eins og hv. þm. talaði réttilega um. Þar sem um er að ræða þjónustugjald sem er eingöngu ætlað að standa straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu á breytingin ekki að fela í sér auknar álögur á gjaldendur. Er í því sambandi bent á að langflest sveitarfélög nýta sér einungis að hluta álagningarheimild sína vegna vatnsgjalds.

Varðandi vangaveltur hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um stöðu annarra veitna vill svo til að hitaveitur og rafveitur heyra öðru ráðuneyti. Þetta gerir visst ósamræmi og mér fyndist að alveg kæmi til greina að vatnsveiturnar færðust yfir til iðnrn. Ég tel að þær ættu ekkert síður heima þar en hjá félmrn. En það er arfur frá gamalli tíð að þetta er hjá félmrn.