Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 17:34:08 (1644)

2000-11-13 17:34:08# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[17:34]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ekki var mikið á þessu innleggi hæstv. fjmrh. að græða til þess stórmáls sem við höfum verið að ræða í dag og þá einkanlega á fimmtudaginn var og lýtur að stöðu sveitarfélaga í landinu og skattlagningu á þegna landsins og pólitískrar stefnumótunar í þeim efnum.

Það frv. sem hann mælir fyrir snýr einkum og eingöngu að því að lækka tekjuskatt um 0,33% 1. janúar nk. Eins og segir í greinargerð og athugasemdum við það lagafrv. orðrétt, með leyfi forseta:

,,Til að milda áhrif framangreindrar heimildar sveitarfélaga til hækkunar á útsvari er lagt til að skatthlutfall tekjuskatts einstaklinga lækki um 0,33%.``

Það er með öðrum orðum þannig að Sjálfstfl. kemur hér til leiks á lokasprettinum til þess að milda þær tillögur sem hæstv. sveitarstjórnarmálaráðherra hefur mælt fyrir og við höfum verið að ræða. Það er nú býsna kúnstugur viðsnúningur á öllu þessu máli --- og skil ég mætavel að hæstv. félmrh. og sveitarstjórnarmálaráðherra vilji hverfa úr salnum, sé búinn að fá nóg --- en það er skemmtilegur viðsnúningur á þessu máli þegar það er öllum lýðum ljóst að það hefur verið Sjálfstfl. fyrst og síðast sem hefur ráðið för í þessu máli, og ráðið þeim meginniðurstöðum sem við okkur blasa, nefnilega þeim að hækka á skatta á íbúa sveitarfélaganna. Og það er í samræmi við yfirlýsingar oddvita þessarar ríkisstjórnar, hæstv. forsrh., sem kom síðsumars og sagði að sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið kynnu ekki með valdið að fara, kynnu ekki að stjórna og þyrftu að horfa í eigin rann og fara að spara peninga og fara að stjórna eins og viti bornir menn. Þeir þyrftu enga nýja peninga til að ná niður viðvarandi hallarekstri sem hefur staðið meira og minna þennan áratug, þ.e. einkum og sér í lagi frá árinu 1995 og til dags dato og hinni staðreyndinni að skuldir sveitarfélaga eru núna komnar í 51 milljarð, þar af 21 nettó hvorki meira né minna. Það er við þær aðstæður sem oddviti þessarar ríkisstjórnar sá sérstaka ástæðu til þess að fara fram í fjölmiðla, óumbeðinn, og lýsa því yfir að allt væri þetta tómt plat og algjörlega að ástæðulausu að menn hefðu af þessu áhyggjur.

Þær voru kaldar kveðjurnar sem hann sendi félögum sínum í sveitarstjórnum vítt og breitt um landið. Það er nú einu sinni þannig, herra forseti, þó að mér þyki erfitt að viðurkenna það, í allt of mörgum sveitarfélögum, stórum og smáum, eru það einmitt ríkisstjórnarflokkarnir sem fara með völdin og áhrifin. Í mínu kjördæmi til að mynda er það þannig að í flestum sveitarfélaganna, með örfáum góðum undantekningum þó, eru það þessir flokkar sem fara með völdin og áhrifin, og þeim félögum sínum var forsrh. að senda slíkar kveðjur.

Það er amen eftir efninu og niðurstaða tekjustofnanefndar eða meiri hluta hennar skulum við hafa það og ríkisstjórnarinnar, var að knýja fram svipaða niðurstöðu, nefnilega þá að vilji sveitarfélögin fá auknar tekjur, sem enginn deilir um að þau þurfa, þ.e. enginn sem hefur sett sig inn í málin á annað borð, þá verði þau að hækka skatta á sitt fólk.

Þetta er niðurstaða sem við í Samfylkingunni ætlum ekki að sætta okkur við, herra forseti. Í tekjustofnanefnd gerði ég ítarlega grein fyrir afstöðu minni til þessara mála sem byggði á sameiginlegri niðurstöðu allrar nefndarinnar þar sem vandinn var greindur, þar sem menn komust að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að 4--6 milljarða kr. vantaði, þó sennilega nær síðarnefndu tölunni, til þess að endar næðu saman í rekstri sveitarfélaga, og til þess að þau ættu nokkurn kost á því að reyna að ná niður skuldabagga sem safnast hefur upp á örfáum árum. Um það voru allir sammála, en þar skildi leiðir því er nú verr og miður þegar ríkisstjórnin knúði fulltrúa sína til þess að keyra fram niðurstöðu sem leiddi til skattahækkana.

Ég sagði að við ætluðum ekki að sætta okkur við þetta og þess vegna höfum við flutt brtt. við frv. sem hér er til umræðu. Sú brtt. er ákaflega einföld í sniðum. Hún gerir einfaldlega ráð fyrir því að tekjuskattur ríkisins lækki jafnmikið og auknar heimildir sveitarfélaga í útsvari nema. Það þýðir með öðrum orðum að tekjuhreyfing verður milli opinberra aðila frá ríkisvaldinu, sem er aflögufært, til sveitarfélaga sem þurfa svo sannarlega á auknum tekjum að halda, en það þurfi ekki að leggja auknar byrðar á almenning í þessu landi, á hinn almenna skattgreiðanda.

Ég rakti það hér á fimmtudaginn og er ástæða til að hnykkja á því að hæstv. fjmrh. var ekki viðstaddur þó að hann viti auðvitað mætavel um þá stöðu, að þetta þýðir einfaldlega það að vítt og breitt um landið á landsbyggðinni mun fasteignaskattshækkunin, sem ríkisstjórnin lofaði fyrir síðustu kosningar, eyðast og ekki verða að neinu. Sú aðgerð sem átti að vera mótvægisaðgerð í byggðamálum mun týnast í því ljósi að þær sömu sveitarstjórnir munu verða nauðbeygðar til að hækka útsvarið jafnmikið og lækkun fasteignaskatts nemur. Það finnst mér vond niðurstaða þegar menn áttu þess kost í þessari lotu að styrkja dreifbýlissveitarfélögin sem eiga mörg í miklum erfiðleikum sökum fólksfækkunar og ýmissar annarrar óáranar.

Ekki skánar ástandið þegar menn horfa síðan til höfuðborgarsvæðisins þar sem fólksfækkunarframlög fást engin. Huga ætti að því satt að segja hvort ekki ætti að búa til nýtt hugtak sem héti fólksfjölgunarframlög því sýnt hefur verið fram á með gildum rökum að það kostar líka verulega fjármuni sveitarfélaga að taka á móti fólki, ekki síður en hinna sem sjá á bak fólki og tekjum. En hér horfir málið einfaldlega þannig við í sveitarfélögum í mínu kjördæmi, þar sem fasteignaskatturinn mun lítið lækka og sums staðar óverulega, að það þýðir einfaldlega hreina og klára skattahækkun, útsvarshækkun, þegar öllu er til haga haldið.

0,33% tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar er eingöngu þriðjungur af þeirri hækkun sem heimiluð er í útsvari á næstu tveimur árum. Það þýðir hér á þessu svæði hreina nettó hækkun gjalda á greiðendur á höfuðborgarsvæðinu upp á milli 1.600 og 1.700 millj. kr. Flóknara er það nú ekki, herra forseti. Einhverjir þurfa auðvitað að borga þennan brúsa og það eru almennir skattgreiðendur.

Hæstv. fjmrh. ber því við og hefur verið að reyna að halda því hér til haga í umræðunni að hin pólitíska ábyrgð væri eftir sem áður sveitarstjórnarmannanna og ríkisstjórnin sé ekkert að knýja á um það við sveitarstjórnir hér á þessu svæði eða annars staðar að þau nýti endilega þessa heimild, enda þótt það liggi fyrir og það hafi verið til þess stofnað, þ.e. þessarar nefndar og þeirrar niðurstöðu, að auka þyrfti tekjurnar af ástæðum sem ég hef hér rakið og gert ítarlega grein fyrir. Menn geta því ekki í einu orðinu sagt að sveitarfélögin þurfi miklu meiri peninga, en svo þegar það hentar þá segja sömu menn ja, það er náttúrlega þeirra að ákvarða hvort þau sækja þessa peninga. Svona auðvitað gerast ekki kaupin á eyrinni.

Ég vil líka nefna það, því hæstv. ráðherra hefur talið það henta inn í þessa umræðu og gerði það á fjármálaráðstefnunni hér fyrir ekki margt löngu og hæstv. félmrh. hefur sumpart verið að elta þennan málflutning og herma eftir honum, að menn vilji að sveitarstjórnarmenn axli ábyrgð og þess vegna komi það mjög vel til greina að stórauka allar heimildir í útsvari. Ég vil hafa það algjörlega á hreinu, herra forseti, að ég tel það mjög mikilvægt að sveitarstjórnarmenn hafi mjög mikið svigrúm og þurfi að bera pólitíska ábyrgð og eigi að gera það. Það séu með öðrum orðum pólitískar áætlanir sem ráði því hvort skattar séu lægri eða hærri og þjónustustigið hærra eða lægra.

En í þessu tilfelli, herra forseti, við skulum það algerlega á hreinu, erum við ekki að ræða málið undir þeim formerkjum. Núna erum við einfaldlega að ræða um það að sveitarfélögin fái það sem þeim ber, fái það bætt sem ríkissjóður í sumum tilfellum hefur tekið frá þeim vegna skattalagabreytinga og reglugerðarbreytinga og fái það líka bætt sem ríkisvaldið hefur sett á þau í auknum þjónustukröfum, m.a. með tilflutningi verkefna. Það er einfaldlega verkefni okkar núna, að ríkissjóður skili til baka því sem hann hefur af sveitarfélögum tekið. Það eru kaup kaups, jöfn skipti. Við skulum halda því algerlega til haga í þessari umræðu en ekki reyna að flækja hana með einhverjum útúrdúrum.

Herra forseti. Ég sagði það í umræðunni á fimmtudaginn og ætla að endurtaka það, auðvitað lyktar þessi aðferð langar leiðir. Auðvitað þarf engan stórsnilling í fléttuleik íslenskra stjórnmála til að sjá hvað hér er á ferðinni. Hér er Sjálfstfl. einfaldlega að búa þannig um hnúta að komi R-listinn í Reykjavík til með að nýta sér þær heimildir sem boðið er upp á, þá mun oddviti íhaldsins í borgarstjórn Reykjavíkur rjúka upp og við fengum reykinn af réttunum, við fengum forsmekkinn í sjónvarpi í gær, þar sem einn borgarfulltrúi íhaldsins einmitt viðhafði þau orð að hann biði þess nú þegar borgarstjóri legði til auknar álögur á Reykvíkinga með hækkun útsvars en ekki var beinlínis á honum að heyra að Reykjavík þyrfti á því að halda og þá er auðvitað leikfléttan uppgengin.

[17:45]

Það er næsti söngur sem Sjálfstfl. sönglar þegar það á við að það séu vinstri menn í Reykjavík sem séu að hækka skatta en ekki þingmenn stjórnarliðsins á þessum bæ. Þeir eiga að vísu ekki jafnauðvelt með það --- og ég sé að hér hafa sumir vaknað upp með gamalkunnugt glott --- í sveitarfélögum utan Reykjavíkur þar sem þegar hafa verið teknar ákvarðanir um það í bæjarfélagi eins og mínum heimabæ, Hafnarfirði, að sækja þessa hækkun og leggja hana á íbúa sveitarfélagsins, á alla Hafnfirðinga. Það verður erfitt að kenna vinstri mönnum um það. Það verður jafnerfitt að kenna vinstri mönnum um það í Garðabæ eða Kópavogi eða Seltjarnarnesi því forsvarsmenn þessara sveitarfélaga hafa lýst því yfir í ræðu og riti margir hverjir. Og sumir hafa raunverulega lagt fram tillögur við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar að þeir ætli að sækja þessar hækkanir. Það verður erfitt fyrir íhaldið að snúa því upp á svokallaða vinstri menn. En það ætla þeir svo sannarlega að gera í Reykjavík. Það er algjörlega augljóst mál, til þess eru refirnir skornir.

Við skulum ekki missa okkur út í svona lágkúrupólitík. Það var augljóst hvað forsrh. var að gera hér á síðsumarsdögum þegar hann hélt þessa messu sína um sveitarfélög í landinu og meinti Reykjavík. Það er ný saga og gömul og við þekkjum hana í stóru og smáu, þ.e. hvernig borgaryfirvöld eiga í sífelldri og endalausri baráttu við þessa ríkisstjórn, hvernig 110 þúsund íbúar í Reykjavík þurfa að eiga það undir dyntum, pólitískum dyntum forsvarsmanna þessarar ríkisstjórnar, að þeim sé þjónað eðlilega eins og öðrum íbúum landsins. Þar nægir að nefna til sögunnar samgöngumálin, þ.e. hvernig þessi ríkisstjórn og fulltrúar hennar með samgrh. í broddi fylkingar með liðsstyrk þingmanns Reykjavíkur, hæstv. fjmrh., vega ár eftir ár í þann knérunn að skera niður mikilvægar framkvæmdir hér. Þetta er framhald á því sem áður hefur verið gert og sagt, að nú eigi að búa þannig um hnúta að knýja sveitarfélög og þá einkanlega Reykjavík til þess að hækka útsvar á borgarbúum.

En við skulum bara standa saman um það, herra forseti, að ganga eðlilega hér um þannig að íbúar sveitarfélaga hringinn í kringum landið njóti jafnræðis í þessari umræðu, í þessu tilliti og ekki verði hækkaðir skattar á nokkurn einasta mann. Það er auðvitað einfalt og eðlilegt að gera það með því að samþykkja þá tillögu sem ég hef mælt fyrir, um að ríkissjóður lækki um 0,99% á næstu tveimur árum, jafnmikið og hækkun í útsvari gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ég ætla ekkert að orðlengja um þetta. Við þekkjum öll málavöxtu í þessu máli. Ég finn það og skynja að Sjálfstfl. svíður það í þessari umræðu, af eðlilegum ástæðum, þegar á það er bent að nú sé það sérstakt keppikefli Sjálfstfl. að búa þannig um hnúta að skattar séu hækkaðir á almennt launafólk í landinu. Það er í fullkomnu ósamræmi við yfirlýsingar þessa flokks, einkum og sér í lagi á hátíðisdögum, og er undarlegt innlegg í pólitíska umræðu dagsins að gera þetta með þessum hætti.

En þetta er nú veruleikinn sem við okkur blasir. Hér hef ég reynt að draga upp myndina eins og hún er í raunveruleikanum en ekki í plati. Því einu sinni var nú sagt úr þessum ræðustóli að sumir hlutir væru þetta og hétu þetta. Og hér erum við að tala um að skattahækkun er hún og skattahækkun skal hún heita. Það er bara þannig. Sjálfstfl. fer nú fram með þessa skattahækkun á almenning í landinu og það skal vera skráð á spjöld hinnar pólitísku sögu svo um munar.

Herra forseti. Ég vil að lyktum fara þess ákveðið á leit við formann, varaformann og raunar alla efh.- og viðskn., að hún tryggi það við meðferð málsins að sú breytingartillaga sem allur þingflokkur Samfylkingarinnar hefur flutt við 1. umr. málsins fái málefnalega umræðu í nefndinni og að sú breytingartillaga, eins og meginfrumvarpið, verði send til umsagnar til allra sveitarfélaga hringinn í kringum landið eins og eðlilegt er. Ég treysti því að þannig verði það gert. Það er hin málefnalega rétta leið og þess vegna er verið að kynna þetta frv. hér og bera það formlega fram við 1. umr. málsins þannig að það fái málefnalega umfjöllun hjá hagsmunaaðilum sem um málin munu fjalla. Það er mjög mikilvægt í þessu máli og ég treysti á liðsstyrk herra forseta um að þau mál gangi fram eins og ég lýsti hér, og einnig nefndarmanna annarra.

Að svo mæltu þarf ég ekki að orðlengja þetta. Hér er veruleikinn býsna skýr og einfaldur í allri sinni mynd og þarf ekki að gera hann flóknari en hann er.