Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 18:30:10 (1651)

2000-11-13 18:30:10# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Niðurstaða þeirrar nefndar sem hefur fjallað um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga er fyrst og fremst tvíþætt.

Fyrri þátturinn er sameiginleg niðurstaða þeirra sem að þessu máli komu, þ.e. að viðurkenna að sveitarfélagið hefur farið halloka í samskiptum við ríkið svo nemur um 6--7 milljörðum króna. Það er í fyrsta lagi vegna skattalagabreytinga sem hafa skert útsvarstekjur sveitarfélaga og síðan vegna áhrifa laga og reglugerða sem ríkisvaldið hefur sett hér á Alþingi og leitt hafa til aukinna útgjalda sveitarfélaga.

Hinn þáttur niðurstöðunnar er að bæta sveitarfélögunum þetta upp með því að heimila þeim að hækka skatta. Sú niðurstaða var ekki samhljóða í nefndinni og skilaði einn nefndarmanna, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, séráliti í því efni þar sem hann lagði til að fengju sveitarfélögin heimild til að hækka útsvar þá mundi ríkisvaldið að sama skapi draga saman í tekjuskatti þannig að íbúar sveitarfélaganna yrðu jafnsettir á eftir.

Það varð ekki niðurstaðan, heldur einungis að leggja hér gífurlega skatta á íbúa þessa lands, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar er um að ræða 1,6 milljarða, nýti sveitarfélögin að fullu þá heimild sem hér er óskað eftir að þau fái. Þar er um að ræða hvorki meira né minna en rúmlega milljarðs króna hreina útsvarshækkun í Reykjavík, ef sú heimild verður að fullu nýtt.

Í þessu sambandi þykir mér ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. örfárra spurninga.

Í fyrsta lagi. Ef mig misminnir ekki þá var sú skattalækkun sem samþykkt var frá Alþingi 1997, þar sem skattahlutfallið átti að lækka um fjögur prósentustig í áföngum, gerð í tengslum við kjarasamninga. Ég spyr hvort það sé rétt munað hjá mér að sú skattalækkun sem ríkisstjórnin fór í þá hafi verið gerð í tengslum við kjarasamninga. Ég held að mikilvægt sé að fá það fram ef svo er. Að vísu hefur það komið fram í umfjöllun manna um þessa skattalækkun að þeir tekjulægri voru látnir borga fyrir hana og hún skilaði sér betur til þeirra sem betur eru staddir með því að skattfrelsismörkin voru fryst. Það kom rækilega fram í þeirri skýrslu sem ASÍ gerði um skattkerfið út frá sjónarhóli launafólks sem kom út í september 1999.

Nú stendur yfir miðstjórnarfundur ASÍ. Í morgun komu skilaboð frá forseta ASÍ um að forseti ASÍ hefur áhyggjur af að verðbólga og þensla ógni stöðugleikanum. Við ræddum það aðeins hér fyrr í dag en hæstv. forsrh. hefur ekki neinar áhyggjur af því, það kom fram í máli hans. En forseti ASÍ hefur áhyggjur af því að þenslan ógni stöðugleikanum og þar með kjarasamningum.

Ég tek eftir því að þó hæstv. forsrh. hafi ekki áhyggjur af stöðugleikanum og þar með kjarasamningum þá lýsti fulltrúaráðsfundur Landssambands sjálfstæðiskvenna um helgina yfir áhyggjum af þenslueinkennum. Þar kemur fram að fulltrúaráðsfundur Landssambands sjálfstæðiskvenna, lýsi jafnframt yfir áhyggjum yfir þenslueinkennum og viðvörunum um að aukna verðbólgu á næstu missirum.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann teldi ekki að sú skattahækkun, sem ríkisstjórnin stendur óhjákvæmilega fyrir með þeirri tillögu sem við fjöllum um hér í þessu frv., ógnaði kjarasamningum sem gerðir voru fyrr á þessu ári, ef taka á aftur verulegan hluta af þeirri kjarabót sem samið var um í kjarasamningum með skattahækkunum. Ég tala nú ekki um ef það er rétt munað hjá mér að skattalækkun ríkisstjórnarinnar á sínum tíma, árið 1997, hafi verið ákveðin í tengslum við kjarasamninga.

Ég vil líka að gefnu tilefni, af því ræða hæstv. ráðherra var nokkuð stutt og hann taldi ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum í framsöguræðu um það frv. sem við ræðum hér, um tekju- og eignarskatt, benda á að í athugasemdum við frv. segir, með leyfi forseta:

,,Til að milda áhrif framangreindrar heimildar sveitarfélaga til hækkunar á útsvari er lagt til að skatthlutfall tekjuskatts einstaklinga lækki um 0,33%.``

Hæstv. ráðherra taldi enga ástæðu til að nefna hvaða áhrif þessar skattahækkanir hefðu á heimilin í landinu, lágtekjuhópa og lífeyrisþega. Í því sambandi er full ástæða til þess að draga upp þál. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar, sem var samþykkt á Alþingi 13. maí 1997. Þar er í III. kafla getið um hlutverk fjölskylduráðs og sagt að hlutverk fjölskylduráðs sé að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, t.d. vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir, jafnframt því að koma á framfæri ábendingum um úrbætur í fjölskyldumálum.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort gerð hafi verið einhver úttekt af hálfu fjmrn. eða annars stjórnvalds á áhrifum útsvarshækkunarinnar á heimilin í landinu, ekki síst lágtekjuheimili.

Ég held að það sé alveg ljóst að lágtekjuheimilin í landinu munu ekki þola þessa skattahækkun. Við þekkjum það, enda hefur verið margfarið yfir það hér í þingsölum, hvernig farið hefur verið með lífeyrisþegana í tíð þessarar ríkisstjórnar. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin ávallt, þegar ákveðnar hafa verið hækkanir á lífeyrisgreiðslum til aldraðra og öryrkja, miðað við þá lægstu viðmiðun sem hún hefur getað fundið hverju sinni, t.d. neysluvísitöluna eftir að hún kippti úr sambandi tengslum vísitölu og lífeyris. Við þekkjum það líka að þessir hópar fóru að greiða skatt fyrir örfáum árum í tíð þessarar ríkisstjórnar, skattleysismörkin hlífðu yfirleitt þessum tekjuhópi sem nú er farinn að greiða skatt.

Ég spyr: Hefur það t.d. verið skoðað hvaða áhrif, ef þessi útsvarsheimild er að fullu nýtt, mun hafa t.d. á lægstlaunuðu hópana, aldraða, öryrkja og þá sem lægst hafa launin á vinnumarkaðnum? Hefur það verið skoðað, ef útsvarsheimildin er að fullu nýtt, hve mikið verður tekið aftur af þeirri kjarabót sem samið var um í síðustu kjarasamningum?

Ég tel nauðsynlegt að sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar, sem er bæði félmn. og efh.- og viðskn., skoði þessi áhrif þannig að hægt sé að meta áhrifin á afkomu heimilanna. Við eigum ekki bara að meta áhrifin á afkomu ríkissjóðs og afkomu sveitarfélaganna heldur einnig að meta áhrifin af þessum skattahækkunum á afkomu heimilanna.

Í þessu sambandi vil ég rifja upp það sem stendur um skattkerfið frá sjónarhóli launafólks í úttekt ASÍ og reyndar skattanefndar BSRB einnig, sem birt var í september 1999, en þar segir með leyfi forseta:

,,Breytingar í skattkerfinu hafa áhrif á afkomu alls launafólks. Áður en ráðist er í breytingar er nauðsynlegt að almenningur sé upplýstur um markmið breytinganna, áhrif þeirra á mismunandi tekjuhópa og tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Síðast en ekki síst er eðlilegt að almenningur fái upplýsingar um fjármögnun skattbreytinga. Upplýsingar og fræðsla eru forsenda upplýstrar umræðu og ákvörðunartöku.``

Ég held að það væri til fyrirmyndar og ætti raunverulega að taka upp í störfum þingsins ef það fylgir ekki með frá viðkomandi ráðuneyti, ekki síst þar sem hér hefur verið samþykkt opinber stefna í málefnum fjölskyldunnar, að skoða hvaða áhrif skattalagabreytingar hafa á tekjur heimilanna. Ekki er síður sérkennilegt að fjalla um skattahækkanir á þessa hópa og heimilin í landinu í ljósi þess að hæstv. ráðherra mun væntanlega hér á næstu dögum mæla fyrir breytingum, sem ríkisstjórnin gerir mikið með, á barnabótakerfinu. Ríkisstjórnin ætlar á næsta ári að verja 600--700 milljónum til að hækka barnabætur en á sama tíma á hér að hækka skatta í landinu verulega, ef sveitarfélögin nýta sér þessa heimild.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Á hann ekki von á því að sveitarfélögin nýti sér þessa heimild, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu sem ekki fær á móti fjármagn í formi lægri fasteignaskatta, eins og mörg sveitarfélögin sem geta þannig bætt sér upp þessa hækkun?

Það er afar sérkennilegt, þegar málið er skoðað út frá sjónarhóli fjölskyldunnar og heimilanna í landinu, að á sama tíma og boðaðar eru breytingar á barnabótakerfinu og ríkisstjórnin setur fjármagn í barnabótakerfið eru boðaðar skattahækkanir sem taka þetta auðvitað allt til baka aftur. Við getum rætt það síðar þegar það frv. hæstv. ráðherra kemur hér til umfjöllunar að jafnvel þó ríkisstjórnin standi nú við það, sem ég held hún geri, að setja tvo milljarða í barnabótakerfið á næstu þremur árum þá erum við samt í sömu stöðu með barnabótakerfið, varðandi fjármagn frá ríkissjóði inn í það kerfi, og við vorum á árinu 1995 þegar þessi ríkisstjórn tók við.

Herra forseti. Ég mun auðvitað ræða við fulltrúa Samfylkingarinnar í félmn. Annaðhvort þarf félmn. eða efh.- og viðskn. að skoða hvaða áhrif þessar breytingar geta haft á fjölskyldurnar í landinu. Auðvitað er sú málsmeðferð sjálfsögð sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson talaði hér fyrir. Ég mun beita mér fyrir því að þegar þetta frv. fer til umsagnar fari tillaga þingmanna Samfylkingarinnar, um að áhrif þessarar skattalagabreytingar verði ekki aukin skattbyrði á íbúana í landinu, fari einnig til umsagnar þeirra sem fá málið til meðferðar.

Herra forseti. Það hefur verið rætt hér af ýmsum, ekki síst þeim sem tilheyra flokki hæstv. fjmrh., að nú sé svigrúm til skattalækkana. Ég er ekki endilega talsmaður þess að svigrúm sé til skattalækkana en ég er heldur ekki talsmaður þess að svigrúm sé til að auka skattbyrðina á heimilum í landinu.

Hæstv. ráðherra, ríkisstjórnin og Sjálfstfl., hafa eina ferðina enn beygt Framsfl. til þeirrar niðurstöðu sem við hér ræðum um í dag. Hann fer auðvitað bakdyramegin að skattahækkunum. Sjálfstfl. þorir ekki að koma fram sjálfur heldur beinir spjótum sínum að sveitarfélögunum, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, og skipar þeim raunverulega að hækka skatta. Hvað er þetta annað þegar viðurkennt er að í fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga að hafa sveitarfélögin verið hlunnfarin um 6--7 milljarða?

Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í Viðskiptablaðið frá því fyrir nokkrum dögum. Þar er rætt um að nú eigi að lækka skatta, ekki hækka, og þar segir, með leyfi forseta:

[18:45]

,,Fram komnar hugmyndir um hækkun á leyfilegu hámarksútsvari sveitarfélaga um 1% án þess að á móti komi jafnmikil lækkun á tekjuskattshlutfalli vekja vægast sagt furðu. Með því að leggja til að leyfilegt hámarksútsvar hækki um 1%, en að tekjuskattshlutfallið lækki aðeins um 0,33% á móti, er beinlínis verið að leggja til skattahækkun.``

Þetta eru staðreyndir málsins. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að fjárhagsstaða ríkissjóðs er sérlega góð um þessar mundir, en samkvæmt frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir metafgangi á rekstri ríkissjóðs á næsta ári og útlit er fyrir að nú sé að draga úr þenslu eftir mikið uppgangstímabil, gæti tímasetningin fyrir tillögu um skattahækkanir varla komið meira á óvart. Þvert á móti hníga öll rök að því að nú sé rétti tíminn til að lækka skatta.``

Ég er ekki að skrifa undir það að nú sé tími til að lækka skatta vegna þess að ég held að þenslan í þjóðfélaginu sé allt of mikil. En það á heldur ekki að hækka þá, að mínu viti, vegna þess að greiðsluþol heimilanna er ekki meira. Við ræddum það hér fyrr í dag að samkvæmt áætlun Seðlabankans hækkar hlutfall skulda heimilanna og ráðstöfunartekjur þeirra úr 147% um síðustu áramót í 163% um þau næstu. Þetta er náttúrlega gífurleg aukning á skuldum heimilanna. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi engar áhyggjur af því að verið sé að leggja skatta á heimilin í landinu undir þessum kringumstæðum.

Í Viðskiptablaðinu var áður búið að tala um mikinn afgang hjá ríkissjóði og síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Talsvert svigrúm virðist því vera til að lækka skatta án þess að það þurfi að fela í sér breytingar eða samdrátt í rekstri ríkisins. Fjármálaráðuneytið metur það sjálft svo að um 15 milljarðar kr. af áætluðum rekstrarafgangi ríkissjóðs á næsta ári sé vegna góðs árangurs í ríkisrekstrinum og að sá afgangur mundi því halda sér í venjulegu árferði. Það er því sjálfsögð krafa að skattar verði lækkaðir sem þessu nemur.``

Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta, það sem ég tek undir:

,,Engu að síður er allt annað en að tekjuskattshlutfall ríkisins lækki a.m.k. jafnmikið og sveitarfélaganna, verði heimilað að hækka útsvar, algjörleg óásættanlegt.``

Undir þetta er tekið. Það er algjörlega óásættanlegt, og það er skoðun okkar þingmanna í Samfylkingunni, annað en að ríkið lækki á móti það sem það hefur af tekjuskatti sem samsvarar því sem sveitarfélögin þurfa þá að leggja á í útsvari til þess að þeim verði bætt upp það sem á hefur hallað í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Herra forseti. Ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég á sæti í efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til meðferðar. Ég mun að sjálfsögðu greiða fyrir því að frv. geti farið sem fyrst til umsagnar og að breytingartillaga okkar þingmanna Samfylkingarinnar fylgi þar með. En mér finnst ýmsu ósvarað sem ég hef getið í máli mínu og ætla ekki að endurtaka af því að hæstv. ráðherra hefur setið undir þessum umræðum og væntanlega hlýtt á mál mitt. Eins og hæstv. fjmrh. heyrir þá finnst mér vanta upplýsingar um hvaða áhrif það hefur á einstaka tekjuhópa í þjóðfélaginu ef þetta útsvar verður að fullu nýtt. Ég spyr, herra forseti, hvort það liggi fyrir í fjmrn. Ég mun kalla eftir því í umfjöllun nefndarinnar um þetta mál þannig að ef það liggur ekki þegar fyrir þá mun það greiða fyrir störfum nefndarinnar ef slík vinna yrði sett í gang að skoða áhrifin af þessari breytingu á einstaka tekjuhópa í þjóðfélaginu.

Síðan spyr ég hvort hæstv. ráðherra hafi ekki áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á þá kjarasamninga sem gerðir voru í vor og hvort þetta sé ekki á skjön við þá kjarasamninga sem gerðir voru 1997.