Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:03:55 (1653)

2000-11-13 19:03:55# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:03]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt að hafa svona knappan tíma í andsvari, en mun reyna að koma því til skila sem ég hef að segja.

Ég vil bara benda á það sem ég gerði grein fyrir í ræðu minni, að tekjuauki ríkissjóðs á milli áranna 1997 og 1998 er meiri en öll heildarútgjöld sveitarfélaganna, 46,8 milljarða tekjuauki ríkisins er meiri en heildarútgjöld sveitarfélaganna. Ég verð að hryggja hæstv. fjmrh. með því að mörg sveitarfélög geta ekki notað þennan tekjuauka sem þau munu vissulega nota sér sem gefst kostur á núna til að greiða niður skuldir heldur bara til að standa við þær skyldur sem á þau hefur verið lagt með lögum frá Alþingi.

Og að auki, af því talað var um lífeyrisiðgjöldin í ræðu hæstv. fjmrh., þá vil ég nefna að 1997 er tekjutap sveitarfélaganna 863 millj., tekjutapið 1998 972 millj. Gaman væri að fá að vita hvert tekjutap ríkisins var, hæstv. forseti.