Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:07:08 (1657)

2000-11-13 19:07:08# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Enn þá er sú viðleitni uppi að gera þessa einföldu mynd flókna. Það liggur í augum uppi að þær breytingar sem hér er verið að gera tillögur um munu auka heildarskattbyrði, um það þarf ekki að deila. Það er líka staðreynd að ekki er jafnvægi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það birtist m.a. í þeirri staðreynd að á sama tíma og sveitarfélögin hefðu skilað á næsta ári 3 milljarða kr. halla í rekstri plús 2,5 milljörðum til þess að standa skil á fjármagnsgjöldum vegna þungra áhvílandi gjalda er ríkissjóður rekinn með jafnvel einum 20--30 milljarða kr. hagnaði. Það segir okkur í raun alla söguna og er kjarni málsins.

Ef hæstv. fjmrh. er þeirrar skoðunar að svona sé staðan ekki er hann þá að taka undir orð hæstv. forsrh. þess efnis að sveitarstjórnarmenn hringinn í kringum landið kunni ekki með peninga að fara og eigi einfaldlega að taka sér tak? Á að leysa vandann þannig?