Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:08:21 (1658)

2000-11-13 19:08:21# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg nú að forsrh. hafi aldrei sagt að sveitarstjórnarmenn hringinn í kringum landið kunni ekki með peninga að fara. Ég hygg að hann hafi sagt það sem við öll getum sagt, að þeim beri að sýna ráðdeild og fyrirhyggjusemi í meðferð almannafjár alveg eins og okkur ber að gera.

Hins vegar varðandi það sem þingmaðurinn sagði í upphafi, þá er enginn að reyna að gera einfalt mál flókið. Málið er nákvæmlega þannig að sveitarfélögin fá rýmri heimildir til þess að leggja á útsvar. Þau ráða því sjálf hvort þau nýta þær heimildir. Ríkissjóður leggur fram 1/3 af útsvarshækkunarheimildinni í beinhörðum peningum til að greiða fyrir þessu og svo verða þau sveitarfélög sem telja sig þurfa á þessum peningum að halda að gera það upp við sig sjálf hvort þau hækka sitt útsvar. Það er ekkert víst að öll þurfi á því að halda. Ég hefði talið fyrir fram að svo væri ekki, en ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það.