Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:15:49 (1665)

2000-11-13 19:15:49# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. á að viðurkenna að hér er um að ræða sérstakan skatt á höfuðborgarsvæðið. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu fá ekki þessa útsvarshækkun upp borna með lækkun á fasteignasköttum. Hæstv. fjmrh. er þingmaður Reykvíkinga þannig að hann ætti að muna það. Mér fannst hann vera að hvetja til skattahækkunar vegna þess að hann sagði að það væri mikilvægt að sveitarfélögin nýttu sér þessa útsvarshækkun til þess að lækka skatta. Mér fannst hæstv. ráðherra sýna mikið hugrekki að blanda barnabótunum í þetta mál þegar staðreyndin er sú að jafnvel eftir tvö eða þrjú ár, þegar barnabótahækkunin er að fullu komin til framkvæmda, þá hefur hann ekki einu sinni náð að flytja barnabæturnar í það horf sem þær voru 1995.

Síðan spyr ég: Telur hæstv. ráðherra ekki að 0,99% prósent hækkun á útsvari ógni kjarasamningum ef verður nýtt að fullu?

Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra geti tekið undir það.