Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:16:55 (1666)

2000-11-13 19:16:55# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það eru 0,99%, hv. þm., mínus 0,33% --- er það ekki? --- sem ríkissjóður er að leggja hér til í þessu frv. sem við erum að ræða hérna núna, á tveimur árum, þ.e. 0,33% nettó núna og svo aftur á næsta ári. Ég sé ekki, þegar tekið er tillit til annarra aðgerða, eins og ég er margbúinn að segja hérna, að í því felist í sjálfu sér stórfelld skattahækkun þegar tekið er tillit til allra hinna atriðanna sem við höfum verið að fjalla um.

Barnabótafrv. munum við að sjálfsögðu ræða sérstaklega þegar þar að kemur, vonandi sem fyrst, hér í salnum. En það er algjörlega tilgangslaust að vera að velta því fyrir sér hvort fyrir fimm árum hafi þær verið svona og svona. Það sem er að gerast núna er að verið er að lækka skattana með barnabótafrv. fyrir barnafólk mjög umtalsvert frá því sem er núna, hvað sem líður því sem var fyrir fimm árum. En tekjubreytingar hafa að sjálfsögðu verið mjög miklar á þeim tíma, miklar tekjuhækkanir og fólk færst vegna tekjutengingar niður í því kerfi.