Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:27:56 (1672)

2000-11-13 19:27:56# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:27]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð við lok fyrstu umræðu þessa máls. Hér hafa farið fram eilítið sérkennileg orðaskipti milli hæstv. fjmrh. annars vegar og nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar hins vegar þar sem hæstv. ráðherra hefur viljað láta í veðri vaka að þegar öllu væri til haga haldið væri í raun um litlar viðbótarálögur að ræða, jafnvel þó að sveitarfélögin öll sem eitt nýttu hinar auknu heimildir í útsvari.

Þessu er ekki svona farið og til þess að öllu sé haldið mjög klárlega til haga þá lítur dæmið einfaldlega þannig út að auknar heimildir í útsvari á næstu tveimur árum eru upp á 3,8 milljarða kr. eða þar um bil. Lækkun ríkissjóðs á móti er upp á 1.250 milljónir. Eftir standa heimildir til hækkunar upp á 2,5 milljarða kr.

Síðan vill hæstv. ráðherra blanda inn í þetta áhrifum af annars vegar fólksfækkunarframlagi upp á 700 millj. kr. og hins vegar lækkun fasteignaskatts upp á 1,1 milljarð kr., sem jafni út þessi heildaráhrif að verulegu leyti.

En, herra forseti, við skulum aðeins velta því fyrir okkur hvar þau falla til þessi áhrif hinna sértæku aðgerða sem eru fólksfækkunarframlög og fasteignaskattslækkun. Við skulum líka velta því fyrir okkur hvað í raun þau blandast tekjustofnakerfi sveitarfélaga, þ.e. þeirri vinnu sem nefndinni var falið á sínum tíma, að mjög litlu leyti.

Rifjum aðeins upp að þessi fólksfækkunarframlög komu til á síðasta ári og voru endurvakin. Menn voru þeirrar skoðunar hér fyrir u.þ.b. áratug síðan að þetta væri ekkert sérlega sniðug aðferð í baráttunni gegn fólksflótta af landsbyggðinni og fyrir jafnvægi í byggð landsins. En það var neyðarbrauð að ríkisstjórnin sýndi lit í þessa veru. Auðvitað er það þannig, sem sértækt atriði, að nú erum við að uppskera eins og til hefur verið sáð af hálfu þessarar ríkisstjórnar á síðustu fimm árum, nefnilega þann vanda sem í því felst að fólk er að flytjast af landsbyggðinni hingað á suðvesturhornið. Það er auðvitað sjálfskaparvíti sem ríkisstjórnin sjálf hefur búið sér. Hún hefur skapað þetta ójafnvægi og er að reyna á mjög veikan hátt að leysa með þessum sértæku aðgerðum sem hafa að öðru leyti sem heildaráhrif á tekjustofna sveitarfélaga um lengri framtíð, ákaflega lítið vægi.

[19:30]

Menn hafa staldrað við þennan þátt málsins, ójafnvægi í byggð landsins. Hæstv. ráðherra sem þingmaður Reykvíkinga gerði lítið úr því að það kostaði sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu umtalsverða fjármuni að taka á móti fólki af því að þegar til lengri tíma væri litið greiddi þetta fólk sín gjöld, sem það gerir. Lærðir menn, m.a. í flokki hæstv. ráðherra, hafa þó sýnt fram á að a.m.k. til skemmri tíma fylgi þessu umtalsverð útgjöld. Ég vona að menn taki eftir því í þessari skýrslu sem hér hefur verið tekin saman til að greina vandann. Hvar er helst verið að safna skuldum hjá sveitarfélögum í landinu? Það er hér á höfuðborgarsvæðinu, ekki endilega í Reykjavík en hér í nágrannabyggðum, m.a. vegna þess að fólk kemur hingað í stórum stíl á örskömmum tíma, það þarf að ráðast í mjög kostnaðarsama uppbyggingu á skömmum tíma sem leiðir til þess að nettóskuldir þessara sveitarfélaga hækka um milljarða og aftur milljarða. Um þetta var nefndin algjörlega sammála þannig að þessi nýja sýn hæstv. ráðherra á þetta tiltekna vandamál er ákaflega sérkennileg.

Varðandi fasteignaskattinn þá er hér um að ræða kosningaloforð Sjálfstfl. og annarra. Flokknum ber auðvitað að skila því á sama hátt og honum ber að standa við fyrirheit í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði um að skila til baka hluta af barnabótum. En verum ekki að blanda því í þessa stóru jöfnu hér. Hér erum við að tala um tekjustofna sveitarfélaga. Með góðum vilja, með því að taka þessa óskyldu þætti inn í, þá stöndum við eftir sem áður frammi fyrir því að hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fólksfækkunarframlaga og fasteignaskattslækkunar nýtur ekki við, er hrein hækkun eftir hin mildandi áhrif af lækkun tekjuskatts upp á 1.600 millj. kr., á þessum tveimur árum þegar þetta er að fullu komið til framkvæmda. Þessir 160 þúsund íbúar verða að bera það uppi hér á þessu svæði. Ef það þýðir ekki aukna skattbyrði á íbúa þessa svæðis þá veit ég ekki hvað það þýðir. Þá hef ég satt að segja algjörlega misst áttir. Einhver verður auðvitað að borga þennan brúsa og það eru auðvitað engir aðrir en skattgreiðendur í þessu landi.

Mér finnst dálítið sérkennilegt, herra forseti, þegar hæstv. ráðherra segir að á sama tíma og sveitarfélögin hafi séð af tekjum þá hafi ríkissjóður ekki fengið þær. Það getur vel verið að þar sé ekki þráðbein lína á milli en tölurnar tala auðvitað sínu máli. Þær birtast okkur í því að tekjuaukning ríkissjóðs, eins og margir hv. þm. á borð við Gísla S. Einarsson hafa sýnt hér glögglega fram á, hefur stóraukist og mun hraðar en tekjuþróun sveitarfélaga. Það gefur augaleið af hverju það er og hitt að útgjöld sveitarfélaga aukast hraðar en tekjuþróunin. Það segir okkur að þarna hafi orðið breytingar á áherslum og í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Nefndin var þó sammála um það. Ég hvet hæstv. ráðherra til að lesa bls. 32 þar sem um þetta er fjallað. Við eigum ekki að þurfa að deila um staðreyndir, þær blasa hér við, herra forseti.

Þetta segir mér, herra forseti, að í miðju góðærinu, sem að vísu er farið að draga eilítið úr, eftir góðæri umliðinna ára, er veruleikinn sá að sveitarfélögin í landinu hafa safnað háum skuldum. Það ber ekki vitni um að hér sé málum vel til haga haldið og viturlega stýrt. Það er það sem við okkur blasir. Nú á að leysa þennan vanda sem orðið hefur til á umliðnum árum með hallærisleiðinni: hækkum bara skatta á fólkið. Þegar menn skoða heildarmyndina þá er þjónusta ríkis og sveitarfélaga auðvitað að fullu og öllu greidd af fólki í þessu landi, ekki hæstv. ráðherra, einstökum sveitarstjórnarmönnum eða einstökum þingmönnum. Fólkið í landinu borgar fyrir þessa þjónustu með sköttum sínum eða þjónustugjöldum. Hér er einfaldlega lagt til að fólkið borgi meira fyrir sambærilega þjónustu en verið hefur. Í minni orðabók hefur það fram til þessa þýtt skattahækkun. Til hamingju, hæstv. fjmrh., með þessa niðurstöðu.