Ríkisábyrgðir

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:36:53 (1674)

2000-11-13 19:36:53# 126. lþ. 23.6 fundur 165. mál: #A ríkisábyrgðir# (EES-reglur) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta virkar lítið og einfalt frv. en það vekur spurningar. Í fyrsta lagi kemur fram í grg. að ábyrgðargjaldið hefur verið 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra erlendra skuldbindinga og 0,0375% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra innlendra skuldbindinga. Hæstv. fjmrh. hefur rakið hér hvers vegna breytingin er gerð, að eftir umfjöllun EFTA-dómstólsins þá megi ekki mismuna innlendum og erlendum lántakendum.

Með hliðsjón af þessu spyr ég: Vegna hvers var farin sú leið að hækka 0,0375% á ársfjórðungi upp í það sem var á erlendu lánin og hversu margir íslenskir lántakendur, ef hægt er að spyrja svo einfaldlega, eiga hér hlut að máli? Þetta er auðvitað hækkun fyrir þá.

Jafnframt, herra forseti, kemur fram að lögfesting frv. hafi ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Það kemur auðvitað ekki á óvart vegna þess að ábyrgðargjaldið rennur til ríkissjóðs. Þá spyr ég auðvitað: Eykur þetta tekjur til ríkissjóðs og ef svo er, hve mikið?

Ef það er eitthvert jafnvægi á milli erlendra og innlendra lána þá hefði maður talið að það hefði átt að finna einhverja nýja prósentutölu þegar tekið var á þessu máli í stað þess að hækka lægri töluna upp í þá hærri. Hins vegar hlýtur þetta allt að ráðast af því hvert umfang þessara lána er og hvort það er ekkert af lánum af innlenda markaðnum.