Ríkisábyrgðir

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:42:20 (1677)

2000-11-13 19:42:20# 126. lþ. 23.6 fundur 165. mál: #A ríkisábyrgðir# (EES-reglur) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er þannig til komið að aðili sem naut ríkisábyrgðar fékk kröfu um greiðslu ríkisábyrgðargjalds í hærra gjaldstiginu vegna þess að um var að ræða erlenda skuldbindingu, erlent lán. Viðkomandi neitaði að greiða hærra gjaldstigið og taldi að þar væri um mismunun að ræða vegna þess að menn með innlendar skuldbindingar þyrftu ekki að borga nema sem næmi lægra þrepinu. Þess vegna kom til þessa ágreinings. Í framhaldinu var leitað til EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit sem kvað upp úr með að þetta stæðist ekki. Þá er farin sú leið að leggja til að hið almenna gjaldþrep, sem gilti áður en þessi breyting var gerð 1997, að því er ég best veit, jafnt um innlendar sem erlendar skuldbindingar, taki gildi á nýjan leik fyrir hvort tveggja. Ívilnunin sem átti að felast í lægra gjaldþrepinu fyrir innlendar skuldbindingar er afnumin. Sú tilraun sem í því þrepi fólst misheppnaðist.