Veiðieftirlitsgjald

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 19:49:52 (1679)

2000-11-13 19:49:52# 126. lþ. 23.10 fundur 216. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (fjárhæðir) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[19:49]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við ræðum um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald. Út af fyrir sig tel ég að það sem hér er lagt til sé allt saman eðlilegt og hafi menn reiknað kostnaðinn rétt út og annað fari þar eftir, þá býst ég við að segja megi að hægt sé að taka undir flest af því sem þarna er lagt til.

Ég ætla að neita mér um að fara í langa umræðu um ástæðurnar fyrir því að þetta gjald er lagt til eins og það er, en ég verð þó að segja að þessi hugmynd um að útgerðarmenn borgi einhvers konar refsivist, eða hvað ætti að kalla það, eftirlitsmanna eftir sjö daga um borð hjá sér er ákvæði sem mér fyndist að ætti að hafa öðruvísi. Ég tel reyndar að ef það er þannig að útgerðarmenn eigi eða verði dæmdir til að borga veru eftirlitsmannsins um borð áttunda daginn, þá ættu þeir alveg eins að borga hina sjö á undan. Hafi það sannast að þeir hafi ekki hagað sér með eðlilegum hætti á miðunum, þá er það æði hart að allur kostnaður skuli greiddur af sameiginlegum framlögum í sjö daga en áttundi dagurinn greiddur af útgerðarmanni. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að þetta komi ekki til með að verða mjög raunhæf leið þó að einhvers konar refsihótun sé falin í ákvæðum sem er búið að setja í lög um þessa hluti.

En ég sit í hv. sjútvn. og fæ tækifæri til þess að fara með öðrum nefndarmönnum yfir það sem hér er lagt til og ætla þess vegna ekki að lengja umræðuna neitt en legg áherslu á að mér sýnist í fljótu bragði, miðað við það sem búið er að leggja til, að hér sé eðlilega staðið að framhaldinu þó að ég sé ekki sammála upphafinu.