Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 14:46:06 (1694)

2000-11-14 14:46:06# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði um svokallaðan New York-samning sem hefur það að meginmarkmiði að viðurkenna erlenda gerðardóma og fullnustu þeirra í aðildarríkjum samningsins. Því er til að svara að þess var getið í málaskrá utanrrn. þegar stefnuræða forsrh. var flutt að hann verði lagður fyrir Alþingi sem nú situr. Bæði í utanrrn. og í dómsmrn. er vinna í fullum gangi í við að ganga frá þessu máli en af því getur væntanlega ekki orðið fyrr en á vorþingi.

Þessi samningur er mjög nátengdur sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samninga um sölu á vöru milli ríkja sem oft er nefndur Vínarsamningurinn. Sá samningur verður lagður fyrir Alþingi, væntanlega fyrir jól. Þegar hann hefur verið samþykktur, sem ég vænti að verði gert, þá stendur aðeins eftir svokallaður New York-samningur sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Ég vænti þess að þeim málum verði lokið á yfirstandandi þingi.

Forsenda þessa máls er m.a. sú að á sl. þingi voru afgreidd hér lög nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Það var ekki fyrr en búið var að afgreiða þá löggjöf að talið var rétt að leggja þessa samninga fyrir Alþingi. Sú vinna er í fullum gangi eins og ég hef þegar greint frá.