Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:06:03 (1698)

2000-11-14 15:06:03# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. utanrrh. að sem betur fer búum við í þjóðfélagi sem leyfir honum að hafa vitlausar skoðanir. Það eru mikil hlunnindi að búa í slíku samfélagi og það viljum við öll.

Það sem ég gagnrýndi í sambandi við þessa framsetningu er tvennt: Það er annars vegar framsetningin, þ.e. að leggja þessa óskyldu og ósambærilegu hluti að jöfnu. Ég tel það vera óskylda og ósambærilega hluti að fjalla um lýðræðislega uppbyggt samstarf Norðurlandaþjóðanna á sínum vettvangi sem er samstarf fullvalda ríkja án nokkurs yfirþjóðlegs valds, eins lýðræðislegt í grunninn og nokkuð getur verið og hins vegar aðild að hernaðarbandalagi, að taka afstöðu til vígbúnaðarmála eða halda erlendan her í landi sínu. Það er það fyrra sem ég gagnrýni.

Framsetningin hér leggur þessa hluti að jöfnu í einni og sömu setningunni að um þetta sé samstaða eins og um sambærilega hluti væri að ræða.

Hið síðara er hið efnislega innihald fullyrðingarinnar. Það er rangt. Hæstv. utanrrh. getur vissulega reynt að hafa það mat á hlutum að það sé ekki þetta heldur hitt eða annað sem valdi stuðningi við stjórnmálaflokka, en hæstv. utanrrh. getur varla þurrkað út það sem fyrir liggur í sögunni. Hæstv. utanrrh. hlýtur að vita að þetta hefur lengi verið eitt heitasta og umdeildasta deilumál þjóðarinnar. Það vill svo til að ég fer líka á fundi. Það vill svo til að ég heimsæki líka skóla og ég tel mig geta borið um það með alveg jafngildum rökum og hæstv. utanrrh. að einmitt að þessu leyti t.d. hvað varðar friðarmálin, hvað varðar andstöðu við erlendan her eru skoðanir skiptar og mikill stuðningur við þau sjónarmið sem ég tel mig færa fram í þeim efnum, t.d. í skólum landsins. Það fullyrði ég og hef ýmislegt fyrir mér í þeim efnum, enda verið býsna duglegur við það satt best að segja að heimsækja slíkar stofnanir á umliðnu árum.