Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:08:09 (1699)

2000-11-14 15:08:09# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi ekki í ræðu minni að alger samstaða ríki. Ég segi að mikil samstaða ríki. Ég segi ekkert um það að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé sammála þessu mati eða hans flokkur. Ég fer ekkert ofan af því að ég tel að mikil samstaða ríki um þessi mál og ég teldi það mjög mikilvægt ef hv. þm. gerði sér betur grein fyrir þeim gífurlegu breytingum sem hafa orðið á þessum málum. Hann ræðir þessi mál eins og ekkert hafi gerst í Atlantshafsbandalaginu sl. áratug. Við erum bara að tala um allt annað Atlantshafsbandalag en þegar hann tók þátt í Keflavíkurgöngum eða öðrum göngum. Við eru hér með allt annað mál á borðinu. Það má vel vera að hann upplifi þetta einhvern veginn öðruvísi en ég og það verður þá bara að hafa það. Ég ætla ekki að fara að deila við hann um það. En ég hef þessa skoðun og leyfi mér bara að hafa hana hvað svo sem hann segir um það.